Dry age rib-eye að hætti mömmu Lindu Ben

mbl.is/Linda Ben

Þetta er mögulega ein óþjálasta fyrirsögn sem sögur fara af sem er svo sem ekkert skrítið enda er hún afar sérstök. Innihald fréttarinnar er þó öllu betra því hér gefur að líta uppskrfit að heilsteiktri rib-eye steik sem matarbloggarinn Linda Ben fullyrðir að sé hreint framúrskarandi enda sé hún elduð eftir forskrift móður hennar sem sé manna flinkust þegar kemur að eldun á nautakjöti. 

Sjálf segir Linda að nautakjöt sé best þegar það hefur fengið að hanga lengi, það verði bæði mýkra og bragðmeira. „Þess vegna er dry age-nautakjöt oft langbesti valkosturinn. Við keyptum alveg virkilega gott dry age-nautakjöt í Hagkaup Kringlunni og vegna þess hve ánægð við vorum með það tek ég það sérstaklega fram og mæli 100% með! Annað sem gott er að hafa í huga þegar keypt er nautasteik er að skoða hversu fitusprengd hún er. Það er mjög gott þegar kjötið er vel fitusprengt, kjötið er mýkra og bragðmeira.“

Dry age rib-eye að hætti mömmu Lindu Ben

Það er yfirleitt miðað við 250 g af kjöti á mann þegar eldað er nautakjöt. Eldunartíminn fer svo eftir því hversu stór steikin er.

Hér er það sem mamma gerði til þess að ná kjötinu svona góðu:

  1. Það er afar mikilvægt að kjöt hafi náð stofuhita áður en það er sett í ofninn, eldunin verður jafnari í gegn ef það er ekki kalt inni í miðjunni þegar það er sett í ofninn. Það er því best að taka kjötið út úr ísskápnum strax um morguninn ef á að setja það inn í ofn síðdegis.
  2. Þegar elduð er heil steik af nautakjöti er best að elda hana við lágan hita í ofni í langan tíma. Því þarf næst að kveikja á ofninum og stilla á 120ºC.
  3. Áður en kjötið fer inn í ofninn þarf fyrst að loka kjötinu. Mamma byrjaði á því að salta steikina örlítið og pipra. Steikinni er svo lokað með því að steikja kjötið á vel heitri pönnu á alla kanta, það er fallegra þegar kjötið nær að brúnast svolítið.
  4. Því næst setur maður kjöthitamæli í kjötið, mikilvægt að endi mælisins liggi akkúrat í miðju kjötinu, og setur svo inn í ofninn. Kjötið er látið vera inni í ofni þar til kjöthitamælirinn sýnir 60ºC (55ºC fyrir rare og 60ºC fyrir medium rare). Þegar kjötið hefur náð 60ºC er það tekið út úr ofninum og leyft að taka sig í um það bil 15 mín. áður en það er skorið.
  5. Kjötið er því næst kryddað með salti og pipar og borið fram.

Góða steik má að sjálfsögðu ekki vanta gott meðlæti. Við bárum steikina fram með bökuðum kartöflum, smjörsteiktum aspas, fersku salati, bernaise-sósu og góðu rauðvíni.

mbl.is/Linda Ben
mbl.is