Telma kom, sá og sigraði!

Telma Matthíasdóttir sigraði í eftirréttakeppni Nettó.
Telma Matthíasdóttir sigraði í eftirréttakeppni Nettó. mbl.is/aðsend mynd

Eftirréttakeppni Nettó sem haldin var í tilefni heilsu- og lífstílsdaga Nettó sló heldur betur í gegn og var fjöldi innsenndra eftirrétta í sögulegu hámarki. Það voru því margir sem gerðu tilkall til sigursin en það var Telma Matthíasdóttir sem bar sigur úr býtum. 

Telma er mörgum að góðu kunn enda vinsæll einkaþjálfari og heldur hún meðal annars úti vefsíðunni fitubrennsla.is auk þess sem hún er virk á samfélagsmiðlum en á Snapchat má finna hana undir fitubrennsla. Hún er mikill sælkeri og birtir reglulega myndir ásamt ráðleggingum handa fylgjendum sínum. 

Hún segist leggja mikla áherslu á að fá sem mest úr jurtaríkinu eins og grænmeti, ávexti, hnetur og fræ. „Í dag borða ég hvorki kjöt né kjúkling og mjólkurvörur eru í algjöru lágmarki,“ segir hún aðspurð en hún var að vonum ánægð með sigurinn.

„Ég passa vel upp á að fá það prótein í kroppinn sem líkaminn þarf til að starfa eðlilega og nota þá mikið af baunum og grænmeti, egg, fisk og hágæða próteinduft. Það er alltaf smá átak að borða mig ekki pakksadda þar sem ég er matarfíkill, elska að elda og borða!"

Hún segir að uppáhaldsmaturinn hennar sé gott og ferskt salat með alls konar blandi, döðlum, rauðlauk, sætum kartöflum, graskersfræjum, radísum og spírum, toppað með vel steiktum laxabitum og slettu af dressingu yfir sem gerð er úr góðri olíu, sítrónu, hunangi, salti og kryddi.

Við lögðum fyrir hana nokkrar spurningar og að sjálfsögðu birtum við svo uppskriftina að sigurréttinum hennar sem er Bounty-terta sem ætti engan að svíkja.

Hvað finnst þér skemmtilegast að borða? Alltaf góð stemmning yfir sushi

Hver er sakbitna sælan þín? Bragðarefur með frosnum hindberjum, pekanhnetum og ristuðum hnetum.

Stærsta eldhúsklúðrið? Startaði blandaranum mínum án þess að setja lokið á og eldhúsið var eins og sláturhús, bláber, hindber og próteinduft út um alla veggi og loft og þú getur rétt ímyndað þér hvernig ég leit út hahahahaha. Sé mest eftir því að hafa ekki tekið mynd af mér!

Uppáhaldshráefnin þín? Ég á alltaf frosinn banana og ber og prótein sem ég nota í boost og ísgerð sem ég fæ mér á hverjum degi. Kókosolía, döðlur, hnetur og haframjöl sem ég nota mikið í Sælkeragerð. Kúrbíturinn er svo leynivopnið mitt, það er hægt að nota hann í alla matargerð, hann er hitaeiningalítill en gerir allan mat meiri, sem er mjög gott fyrir svona matháka eins og mig.

Eftirlætisheimilistækið þitt? Gæti lifað góðu lífi með Vitamix-blandarann minn, Magimix-matvinnsluvélina mína og hraðsuðuketil, þarf ekki meira!

Hvað fékk þig til að taka þátt í eftirréttakeppni Nettó? Síðustu 7 ár hef ég gert Sælkerahefti fyrir jólin, hollari kökur og konfekt, tertur og hrákökur og fólk hefur verið gríðalega ánægt með það, fólk bíður spennnt eftir nýju hefti í ár. Svo ég ákvað að taka eina vinsæla uppskrift og senda inn. Það var ein úr þjálfun hjá mér sem benti mér á keppnina!

Kom sigurinn á óvart? Nei alls ekki, því tertan er sjúklega góð og mjög girnileg, og ekki skemmir hvað hún er næringarrík líka!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert