„Tapaskóngurinn“ tók á móti Victoriu Beckham

Victoria Beckham var afar kurteis og skildi eftir veglegt þjórfé.
Victoria Beckham var afar kurteis og skildi eftir veglegt þjórfé. AFP

Öll bíðum við spennt fregna af því hvernig fræga fólkið hagar sér á veitingastöðum. Nú berast æsispennandi fregnir af því að hin eina sanna Victoria Beckham hafi farið út að borða á spænska veitingastaðinn Brindisa í Lundunum ásamt einu barna sinna. 

Ekki er ljóst á þessu stigi málsins hvaða barn var með í för en að sögn eiganda staðarins, hins þekkta spænska matreiðslumanns José Pizarro, pantaði frú Beckham fjölda rétta handa afkvæminu svo það fengi að smakka sem mest. Að öllum líkindum er hér átt við fjölda tapas rétta þar sem Pizarro er víst þekktur sem „Tapas-kóngurinn“ eða eitthvað í þá veru. 

Hins vegar pantaði frú Beckham einungis lítið salat handa sjálfri sér og hélt sig við það. Pizarro hafði orð á því að hún hefði verið afskaplega kurteis og skilið eftir ríflegt þjórfé. 

Þar höfum við það!

Victoria Beckham.
Victoria Beckham. mbl.is/AFP
mbl.is