Einföld og góð brokkolísúpa með kókosmulningi

mbl.is/Hanna

Þessi dásamlega súpa er í senn afskaplega bragðgóð og holl. Ekki spillir fyrir að búið er að þróa hana áfram í nokkurn tíma til að gera hana enn betri. 

Það er Hanna sem á heiðurinn að henni en matarbloggið hennar er hægt að nálgast HÉR.

Einföld og góð brokkolísúpa með kókosmulningi

Uppskriftina fékk ég hjá Önnu Kristínu en þegar ég bjó súpuna til fyrst stóð þannig á að það var ekki allt til í hana þannig að hún tók svolitlum breytingum. Útgáfan var bara alveg glimrandi góð og set ég hana hingað inn til að gleyma ekki innihaldi og hlutföllum. Það er svo frábært með þessa súpu að hún verður bara betri daginn eftir… og jafnvel enn þá betri tveimur dögum síðar. Uppskriftina má hæglega helminga en þá er hún passleg fyrir fjóra. Mér finnst gaman gaman að bjóða upp á súpuna í litlum skálum sem forrétt og hef þá hrökkkex með.
  • 2 laukar – saxaðir
  • 4 hvítlauksrif – söxuð
  • 1 grænn chili pipar – saxaður (smekksatriði hversu sterk súpan á að vera – því fleiri fræ þeim mun sterkari  súpa)
  • Olía til steikingar – örlítið af smjöri gefur einnig gott bragð
  • 2 msk. fersk engiferrót – rifin
  • 1 tsk. kóríander
  • ½ tsk. karrý
  • ½ tsk. túrmerik
  • ¼ tsk. cumin
  • 12 dl grænmetiskraftur (12 dl vatn og u.þ.b. 3 msk. grænmetiskraftur – magn aðeins mismunandi eftir tegundum. Má lesa á umbúðum).
  • 2 brokkolíhöfuð (u.þ.b. 600 – 700 g) – tekin í sundur og stilkur skorinn í litla bita
  • 400 g kókosmjólk (ein dós)
  • 2½ dl matreiðslurjómi
  • Ferskur kóríander – má sleppa
  • Nokkrir dropar af sítrónusafa
  • Salt og pipar
Skraut
  • 1 laukur – saxaður smátt
  • 1 – 2 msk. smjör eða olía til steikingar
  • 1 dl kókosflögur
  • Ferskt kórander eða steinselja  
Aðferð: 
  1. Olía hituð í potti.  Laukur og hvítlaukur látnir krauma á lágum hita þar til þeir verða glærir
  2. Chili-pipar bætt út í ásamt engiferi og kryddum – hiti aðeins hækkaður og hrært saman
  3. Kjúklingakrafti bætt við í pottinn
  4. Brokkolí sett út í og suðan látin koma upp – soðið í 5 – 7 mínútur
  5. Kókosmjólkinni hellt út í og soðið í nokkar mínútur. Ef ferskt kóriander er notað er því bætt við ásamt matreiðslurjómanum
  6. Maukað saman í blandara eða með töfrasprota
  7. Bragðbætt með salti, pipar og sítrónusafa
Skraut
  1. Laukur látinn krauma á lágum hita þar til hann verður glær
  2. Kókosflögum blandað saman við og hitinn aðeins hækkaður – tekið af þegar kókosflögurnar hafa tekið smá lit en mega alls ekki brenna – sett í skál
  3. Ferskt kóríander eða steinselja  – saxað
  4. Skrauti dreift yfir súpuna
Meðlæti: Gaman að bjóða upp á nýbakað brauð eða heimatilbúið hrökkkex með súpunni.
mbl.is/Hanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert