Kjúklingalæri í guðdómlegri sósu

mbl.is/

Kjúklingur og kósíheit gæti þessi uppskrift heitið því hér erum við að tala um gómsæta kjúklingaleggi í rjómalegi með alls kyns gúmmelaði. 

Það er Einn, tveir og elda sem á heiðurinn að uppskriftinni en hana er jafnframt að finna í matarpakka vikunnar þar. 

Rjómalagaðir dijon-kjúklingaleggir með sætkartöflumús og ofnbökuðu brokkólí

Uppskrift fyrir tvo

  • 6 stk. kjúklingaleggir
  • 250 ml rjómi
  • 1 tsk. dijon-sinnep
  • 2 msk. hvítvín
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1 stk. sítróna
  • 100 gr. hveiti
  • 300 gr. sætar kartöflur
  • 30 ml ólífuolía
  • 1 tsk. þurrkað basil
  • 1 tsk. grillkrydd
  • 2-3 msk. smjör

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 200°C. Kryddið kjúklingaleggina með salti og pipar og veltið þeim upp úr hveiti.

2. Afhýðið og skerið sætu kartöfluna í bita og sjóðið í 10 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir mjúkir, sigtið bitana síðan frá vatninu og setjið í skál ásamt olíunni, basil og grillkryddinu. Stappið vel saman með stöppu, gaffli eða í matvinnsluvél.

3. Hitið 2-3 msk. af smjöri eða olíu á pönnu og steikið kjúklingaleggina í 6-8 mínútur, veltið þeim reglulega á steikingartímanum.

Blandið saman rjóma, dijon-sinnepi og hvítvíni og hellið yfir kjúklinginn. Látið malla í um það bil 10 mínútur. 

4. Skerið brokkólí í meðalstóra bita og saxið hvítlauk. Setjið í skál ásamt 2 msk. af olíu og kreistum safa úr ½ sítrónu. Blandið vel saman og færið í eldfast mót, bakið í ofninum í um það bil 5-8 mínútur.

Berið kjúklingaleggina fram ásamt sætkartöflumúsinni og brokkólíinu, gott er að kreista sítrónusafa yfir eftir smekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert