Stærstu breytingar í sögu Nóa Síríusar

Silja Mist Sigurkarlsdóttir.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir. mbl.is/

Umhverfisvæn tímamót hjá Nóa Síríusi

Silja Mist Sigurkarlsdóttir, markaðsstjóri Nóa Síríusar, segir nýja tíma vera að hefjast hjá einum elsta súkkulaðiframleiðanda á Íslandi.

„Það má segja að við stöndum á tímamótum núna með breytingum sem munu bæta mikið við möguleika okkar á að þróa nýjar vörutegundir og bæta framleiðsluna á þeim vörum sem við bjóðum þegar í dag. Við erum að ráðast í stærstu breytingar í sögu Nóa og það verður mjög spennandi að takast á við nýja tíma hjá okkur.“

Silja segir aðspurð að breytingarnar feli í sér endurnýjun á tækjakosti verksmiðjunnar, en langt er síðan breytingar hafa orðið á honum.

„Já, Nói Síríus er í grunninn 98 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki sem byggir á langri og sterkri hefð í súkkulaðiframleiðslunni. Þess vegna höfum við verið að vinna með aðferðir og tækjakost sem hafa sannað sig um áratuga skeið. Það er auðvitað frábært að geta framleitt góða og vinsæla vöru á þeim grunni, nýju tækin gefa okkur hins vegar möguleika á að koma með fleiri skemmtilegar útfærslur, en halda um leið gæðum vörunnar í fyrirrúmi.

En þurfa aðdáendur Nóa Síríus-sælgætis að hafa áhyggjur af því að einhverjar vörur breytist eða hætti?

„Nei alls ekki“ segir Silja hlæjandi. „Við munum halda áfram að framleiða súkkulaðið og vörurnar sem fólk þekkir og elskar. Við erum svo heppin að hafa ótrúlega sterkan kúnnahóp sem þekkir vörurnar okkar vel, heldur okkur við efnið í framleiðslunni og kemur með góðar hugmyndir. Það er ótrúlega mikils virði fyrir okkur og þess vegna viljum alltaf gera eins vel og við getum og þróa nýjar vörur. En við vitum líka að fólk vill alltaf geta fengið gamla góða Nóa Síríus-súkkulaðið sitt. Við ætlum reyndar að breyta formunum aðeins þannig að hér eftir mun NS lógóið standa á súkkulaðibitunum í stað Síríusar, en gamla og góða bragðið sem allir þekkja verður á sínum stað, enda engin þörf á að breyta svo gott er það.“ 

Umhverfismálin tekin fastari tökum

„Við erum mjög stolt af því að fyrirtækið leggur mikla áherslu á ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Núna gerum við til dæmis þá breytingu að skipta út plastumbúðum í 150 g rjómasúkkulaðilínunni yfir í pappaumbúðir, sem er umtalsverð breyting og stórt skref í átt að umhverfisvænni vöru og rekstri fyrirtækisins. Okkur finnst skipta miklu máli að bjóða neytendum upp á umhverfisvænni valkost.“

„Þetta verkefni er búið að taka okkur rúmlega tvö ár og nú erum við loksins tilbúin að hefja framleiðsluna,“ segir Silja að lokum. „Það eru því virkilega spennandi tímar fram undan hjá okkur og við vonumst auðvitað til að Íslendingar muni fagna þessu með okkur með því að gæða sér á uppáhaldssúkkulaðinu sínu í nýjum umbúðum. Það eru jú alveg að koma jól.“

mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert