Ísey skyr hlýtur alþjóðleg verðlaun

Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri MS með verðlaunaskyrið.
Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri MS með verðlaunaskyrið. mbl.is/

Skyræðið, sem gengið hefur yfir Ísland og nágrannalönd okkar, virðist engan endi ætla að taka en á dögunum hlaut Ísey skyr aðalverðlaun í skyrflokki á matvælahátíðinni International Food Contest sem haldin var í Danmörku.

Skyrið sem um ræðir er ferskjuskyr með lagi af ferskjum í botninum sem er hægt að hræra saman við skyrið svo úr verður sannkölluð skyrveisla fyrir bragðlaukana. Að sögn dómnefndar hitti skyrið beint í mark en áferðin er silkimjúk og þar er að finna hið fullkomna jafnvægi milli ávaxta og súra bragðsins sem einkennir skyrið.

Skyrið er þróað af vöruþróunarteymi Mjólkursamsölunnar og framleitt fyrir MS á Finnlandsmarkað en Finnarnir eru sólgnir í skyrið, rétt eins og Íslendingar. Enn sem komið er fæst skyrið eingöngu í Finnlandi en vonir standa til að íslenskir skyraðdáendur fái að kynnast þessari bragðsnilld á komandi misserum.

Við sama tilefni hlaut Mjólkursamsalan fleiri verðlaun fyrir vörur sínar, eða 14 allt í allt, og má þar nefna heiðursverðlaun fyrir Súkkulaðimjólk í flokki mjólkur- og kakódrykkja, gullverðlaun fyrir Ísey skyr með bökuðum eplum, silfurverðlaun fyrir hreina gríska jógúrt og Ísey skyr próteindrykk með suðrænum ávöxtum og bronsverðlaun fyrir Hleðslu íþróttadrykk með súkkulaðibragði, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Verðlaunaskyrið góða.
Verðlaunaskyrið góða. mbl.is/MS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert