Aðventudrykkur með Grand Marnier

Fullorðinsútgáfan af heitu súkkulaði.
Fullorðinsútgáfan af heitu súkkulaði. mbl.is/Stine Christiansen

Við sláum ekki hendinni á móti heitu súkkulaði og sérstaklega ekki ef það inniheldur vanilluís og Grand Marnier. Hér er sannkallað jólasúkkulaði í skrautbúningi fyrir fullorðna en það má að sjálfsögðu sleppa líkjörnum og drekka súkkulaðið þannig.

Heitt súkkulaði með vanilluís og Grand Marnier

 • 1 vanillustöng
 • 1 l léttmjólk
 • 4 msk. sykur
 • 100 g dökkt súkkulaði
 • 2 msk. kakóduft
 • Salt á hnífsoddi
 • 1 kanilstöng
 • 1 stjörnuanís
 • 4 kardimommur, heilar
 • Strimill af appelsínuberki
 • ½ L vanilluís
 • 1 dl Grand Marnier

Aðferð:

 1. Opnið vanillustöngina og skafið kornin úr. Hitið 1 dl af mjólkinni með vanillukornunum, sykrinum, súkkulaðinu, kakóinu og saltinu. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
 2. Setjið restina af mjólkinni ásamt kryddum og appelsínuberkinum út í pottinn og hitið upp rólega þar til drykkurinn er orðinn heitur án þess að sjóða. Slökkvið þá undir og látið standa í allt að 1 klukkustund.
 3. Hitið súkkulaðið upp aftur og hellið því næst Grand Marnier út í og berið fram með vanilluís. 
mbl.is