Undurfagrar ævintýrakökur í Bauninni

Ef einhver hefði sagt mér fyrir viku að næsta kaka sem ég myndi falla kylliflöt fyrir væri ekki bara ósegjanlega bragðgóð heldur væri hún vegan í þokkabót hefði ég ábyggilega farið að skellihlæja. Sjáið til – ég nefnilega viðurkenni fúslega að ég er með bullandi fordóma fyrir veganmat og þá ekki síst bakstri. Þess vegna er svo gott og hollt þegar maður áttar sig á því að heimurinn er ekki eins og maður hélt og vegankökur eru bara nákvæmlega jafn góðar og venjulegar kökur – ef ekki betri!

Kökurnar sem um ræðir koma frá Bauninni sem er tiltölulega nýstofnað fyrirtæki sem sérhæfir sig í vegankökum. Kökurnar eru ægifagrar og í veislu á dögunum bar svo við að gestirnir kunnu ekki við að skera í listaverkið sem kakan var. En það var auðvitað argasti óþarfi því kökuna ber að borða – og það með bestu lyst.

Konan á bak við Baunina heitir Lára Colatrella og er bandarísk. Lára er menntuð í heimalandinu bæði í köku- og eftirréttagerð með næringarfræði sem aukagrein. Hún hafði heimsótt Ísland oft áður en hún ákvað að flytjast hingað. „Ég bjó í Fíladelfíu og fluttist þaðan til Húsavíkur. Það voru töluverð viðbrigði,“ segir hún.

Nú gerir þú eingöngu vegankökur - af hverju?

„Mér fannst það vanta. Það er mikið af veganmat í boði í verslunum og á veitingastöðum en hvar eru eftirréttirnir?“

Hvaða bragðtegundir eru í boði?

„Vinsælustu kökurnar eru hindberja- og vanillukakan og síðan dökka súkkulaðikakan. Við erum einnig með vanillu og hvítt súkkulaði, karamellukryddköku, sítrónu og timjan og svo kókosköku. Ég reyni ávallt að nota eins vönduð hráefni og kostur er sem einnig eru góð fyrir líkamann. Ég nota enga gerviliti né aukaefni þannig að kakan er ekki bara falleg heldur einnig góð fyrir þig.“

Hver er þín uppáhaldsbragðtegund?

„Uppáhaldsbragðtegundin mín er matcha og svart sesam. Ég elska svart sesam.“

Hver eru þín næstu skref?

„Ég held að ég taki bara eitt skref í einu. Næsta skref er að kökurnar verða til sölu í Luna Flórens, kaffihúsi sem á að opna úti á Granda í næstu viku. Kökurnar mínar smellpassa þangað inn og ég er virkilega spennt fyrir því samstarfi.“

Hægt er að panta kökur hjá Láru og skoða fleiri myndir á Facebook-síðu Baunarinnar.

Lára Colatrella - konan á bak við Baunina.
Lára Colatrella - konan á bak við Baunina.
mbl.is/Facebook
Kökurnar eru undurfagrar.
Kökurnar eru undurfagrar. mbl.is/Facebook
mbl.is/Facebook
mbl.is/Facebook
mbl.is/Facebook
mbl.is/Facebook
mbl.is/Facebook
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »