7 leiðir til að lifa af jólaundirbúninginn

AFP

Þessi aðgerðaráætlun er hönnuð til þess að halda geðheilsunni sem bestri, draga úr jólastressinu og tryggja að jólahald fari fram með sem eðlilegustum hætti. 

Öll þekkjum við það að jólin nálgast óðfluga og við eigum eftir að gera bókstaflega allt fyrir jólin. Ég á svo margar hryllingssögur af sjálfri mér þar sem ég var annaðhvort að höggva jólatré kortér í sex á aðfangadag eða þaðan af verra (hér er engu logið). Hér gefur að líta lista sem ég hef sett saman sem gæti mögulega auðveldað einhverjum lífið. Í það minnsta dregur hann úr væntingum til jólanna og heldur manni mögulega réttu megin við strikið. Mögulega.

1. Listinn sem þú gerðir og ert að klúðra. Ekki fara í panikk. Fyrsta neyðarúrræðið er alltaf að skera burt allan óþarfa. Hvort sem það endar með því að þú sleppir jólakortunum þetta árið eða það verður engin fjárans rjúpa heldur bara aliönd þá skiptir það ekki öllu máli. Bara alls ekki. Um leið og maður áttar sig á því að planið gekk ekki upp og það er ekkert hægt að gera við því og það þýðir bara alls ekki að grenja yfir því því það breytir engu þá verður lífið skárra. 

2. Ef þú ert að bíða með allt fram á síðustu stundu af því að þú ert bara þannig týpa og það reddast yfirleitt alltaf þá skaltu sleppa því. Skítamix og reddingar korter í jól eru uppskrift að hryllingi. Þér finnst þér kannski hafa tekist vel upp á endanum en alla jafna eru allir á tauginni nálægt þér. Ekki fresta öllu fram á síðustu stundu. 

3. Heimabakstur er ekki fyrir alla. Það er bara þannig. Þess vegna fann einhver snillingur upp tilbúið smákökudeig. Hafi hann ævarandi þakkir fyrir. 

4. Jólin þurfa ekki að vera margréttuð. Kommon. Hver sagði að jólin þyrftu að vera svona flókin? Ég hef heyrt endalausar sögur af úttauguðum húsmæðrum að elda ofan í tengdaforeldra og önnur ættmenni, helmingurinn kominn með glútenóþol, alla vega tveir vegan og þar fram eftir götunum. Þetta er ekki á fólk leggjandi. Legg til að gestir með vesen og sérþarfir sjái um sig sjálfir eða verði bannaðir í boðum. 

5. Ekki gleyma grænu baununum og malti og appelsíni. Litlu hlutirnir skipta máli. Hvar væru jólin án þessarra litlu hluta. 

6. Hrein og fullkomin heimili eru flökkusaga sem einhver ónefnd illa innrætt mannseskja kom á kreik til að við upplifðum eilífa vanmáttar- og minnimáttarkennd. Snjöll leið til að halda okkur í ævarandi skömm. 

7. Gott er að setja lekkert teppi yfir þvottafjallið á hátíðardögum og breyta því í þægilegt sæti fyrir einhvern skemmtilegan. Geysisteppin eru sérlega vinsæl í svona kósísæti eins og einhver kallaði þau. 

CARL COURT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert