Mjólkursamsalan styrkir Mæðrastyrksnefndir og Fjölskylduhjálp Íslands

mbl.is/MS

Mjólkursamsalan hefur undanfarin ár lagt hjálparstofnunum lið fyrir jólin og var engin undantekning á því í ár. Að þessu sinni var tveimur milljónum í formi vöruúttektar úthlutað til fimm góðgerðarfélaga og skiptist styrkurinn á milli Fjölskylduhjálpar Íslands og Mæðrastyrksnefnda í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri.

Á meðfylgjandi mynd má sjá sjálfboðaliða Mæðrastyrksnefndar Kópavogs að störfum við matarúthlutun í desember en þangað berast að jafnaði 160-170 umsóknir fyrir jólin og á bak við hverja umsókn er 3-6 manna fjölskylda svo hópurinn er ansi stór. „Við gerum allt hvað við getum til að vísa engum frá og erum þakklát fyrirtækjum eins og Mjólkursamsölunni, sem og einstaklingum sem leggja okkur, og þar með fjölskyldum í neyð, lið með bæði vöru- og fjárstyrkjum,“ segir Ragnheiður Sveinsdóttir, gjaldkeri Mæðrastyrksnefndar Kópavogs.

„Hjálparstofnanir eru starfræktar allan ársins hring en þörfin er hvað mest í kringum jólahátíðina og vill MS með þessum styrkjum leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á þeim einstaklingum sem leita sér aðstoðar í formi matarúthlutunar fyrir jólin,“ segir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS. Mjólkursamsalan leggur mikið upp úr því að styðja við góðgerðarmál af ýmsu tagi allt árið um kring enda samfélagsleg ábyrgð stór þáttur í stefnu fyrirtækisins. „Á hverju ári styður fyrirtækið við málefni tengd íþróttastarfi, heilbrigðismálum, mennta- og menningarmálum og öðrum góðgerðarmálum og er það von MS að styrkirnir nýtist sem best í hverju tilfelli fyrir sig,“ segir Guðný að lokum og þakkar sjálfboðaliðum góðgerðarfélaganna sérstaklega fyrir að koma styrkjunum áfram til þeirra sem á þurfa að halda.

mbl.is/MS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert