Maggie Q og Dylan McDermott mættu í hádegismat

Klara Óskarsdóttir er allt í öllu á GOTT Reykjavík.
Klara Óskarsdóttir er allt í öllu á GOTT Reykjavík. mbl.is/Ásdís

Klara Óskarsdóttir stendur vaktina alla daga í desember en hún er veitingastjóri á veitingastaðnum GOTT í Hafnarstræti. Miðbærinn iðar af lífi og mannmergð þessa dagana og gaman er að sjá hvernig þessi áður gleymdi hluti borgarinnar hefur lifnað við og orðið þungamiðja í skemmtilegu hátíðarhaldi. 

Staðurinn sérhæfir sig í hollum og bragðgóðum mat sem notið hefur mikilla vinsælda frá því að fyrsti staðurinn opnaði í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum. 

Klara segir að viðtökurnar hér í bænum hafi farið fram úr björtustu vonum. „Stemningin hjá okkur er mjög afslöppuð og við fáum fólk á öllum aldri sem er að leita sér að góðum mat á góðu verði. Barnafólk hefur haft orð á því að hér sé gott að koma með börn enda leggjum við áherslu á að bjóða upp á góðan barnaseðil á góðu verði.“

Jólin hafa verið mikill annatími að sögn Klöru og hef stemningin verið ákaflega skemmtileg. „Jólaseðillinn okkar hefur fengið frábærar viðtökur og eins er algengt að fólk komi hér yfir miðjan daginn í kaffi og kökur. Við erum líka með kaffidrykki - bæði áfenga og óáfenga, sem eru alltaf vinsælir,“ bætir hún við.  

Aðspurð segir Klara að skemmtilegustu viðskiptavinirnir séu fastagestirnir sem komi aftur og aftur. „Þá er maður farinn að þekkja viðkomandi nokkuð vel sem er svo gaman.“

Jólaseðillinn hafi líka verið mjög vinsæll enda fólk að leita að einverju meira spari í desember. „Seðillinn er settur upp þannig að þú færð fjóra forrétti, velur þér svo aðalrétt og í desert færðu þrjá eftirrétti. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum sem eru ánægðir með að fá að smakka svona margt."

Sjálf stendur Klara vaktina nánast alla daga og má því segja að veitingastaðurinn eigi hug hennar allan. Aðspurð hvort hún eigi eitthvert eftirminnilegt atvik sem hún geti sagt frá þá hugsar hún sig um. „Ætli ég verði ekki að minnast á þegar leikaraparið Maggie Q og Dylan McDermott mættu í hádegismat á sunnudegi. Þau áttu ekki bókað og því viðurkenni ég að mér brá dáldið þegar ég sá þau. Hann hafði jafnframt orð á því að spicy-núðlusúpan væri ein sú besta sem hann hefði smakkað. Það var nú ekki leiðinlegt að heyra það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert