Þetta er maturinn sem Íslendingar geta ekki verið án

Ein er sú fæðutegund sem virðist Íslendingum sérstaklega kær. Svo kær reyndar að þeir ferðast með hana milli landa, geta ekki fagnað hátíðum án hennar og telja hana meðal máttarstólpa íslenskrar matarhefðar. Margur myndi ætla að hér værum við að tala um lambakjöt eða mögulega rabbabarasultu en svo er ekki alls ekki.

Við erum að tala um niðursoðnar grænar baunir frá ORA. Ekki er hægt að bjóða upp á önnur vörumerki, það er ekki tekið í mál og samkvæmt tölum sem Matarvefurinn hefur undir höndum þá borðar hver einasti Íslendingur rúmlega þrjár dósir á ári sem gera töluvert magn af þessari dásemd.

Veitingamenn þekkja vel mikilvægi þess að vera með stóra skál af grænum baunum og einn viðmælanda Matarvefsins hafði á orði að fólk ætti það til að snöggreiðast ef það fyndi ekki grænu baunirnar strax.

Útlendingar eiga að sama skapi í mesta basli með að skilja þessa undarlegu hefð enda eru baunirnar erlendar og niðursoðnar í þokkabót.

Hvað Íslendinga varðar þá eru baunirnar máttarstólpi hverrar hátíðarmáltíðar og þótt að yngri neytendur taki tímabil þar sem bauninni er afneita þá snúa flestir frá villu síns vegar á endanum og dásama baunina.

Þriðjungur baunasölunnar fer fram í desember en þá má fastlega reikna með því að um 100 þúsund dósir seljist.

Stóra deilumálið eru hins vegar hvort bera eigi baunirnar fram heitar eða kalda. Að sjálfsögðu á að bera þær fram kaldar en þó nokkrir hafa tekið upp á því að hita þær í örbylgjuofninum rétt fyrir matinn og bera þær fram volgar.

Ljóst er að vinsældir grænu baunarinnar fara síst minnkandi og undirrituð er minnug þess þegar ein viðkunnanlegasta rokkstjarna Íslandssögunnar átti von á heimsókn frá Íslandi til LA þar sem hann dvaldi við tökur á vinsælum sjónvarpsþætti. Hann var spurður að því hvað hægt væri að færa honum að heiman og það stóð ekki á svarinu: „Eina dós af grænum baunum, takk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert