Humarforrétturinn úr Íslandsbankadagatalinu

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Góðar uppskriftir leynast víða og þessi á sér ansi merkilega sögu því eftir bestu heimildum birtist hún í dagatali Íslandsbanka fyrir mörgum árum og á líklega ættir að rekja langt aftur ef að líkum lætur. 

Það er Berglind Hreiðars á Gotterí sem á heiðurinn af útfærslunni sem birtist hér sem hún segist hafa smakkað fyrst hjá Henný vinkonu sinni. Henný hafi svo sent henni uppskriftina og þá hafi uppruni hennar komið í ljós. Hver á svo upphaflega heiðurinn af uppskriftinni er ekki vitað en þið megið endilega hafa samband við okkur ef þið liggið á þeim upplýsingum. 

Haft var samband við mbl.is og þeim upplýsingum komið á framfæri að höfundur uppskriftarinnar sé engin önnur en Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi sem var á þeim tíma starfsmaður Íslandsbanka og sendi uppskriftina inn í keppni. 

Humarvindlar uppskrift

  • 1 stórt hvítt samlokubrauð
  • 1 askja skelflettur humar (um 300-400 g)
  • 180 g smjör
  • 2 x hvítlauksrif (pressuð)
  • 1 msk. söxuð fersk steinselja
  • Salt, sítrónupipar og hvítlauksduft eftir smekk
  • Finnsson hvítlaukssósa.

Aðferð

  1. Skerið kantana af brauðsneiðunum og fletjið út á báðum hliðum svo það verði þunnt og þétt í sér.
  2. Bræðið smjörið og hrærið pressaðan hvítlaukinn, steinseljuna og smá hvítlauksduft saman við.
  3. Raðið humri á brauðið, um 2 bitar duga fyrir hvert brauð en að sjálfsögðu má setja meiri humar í hvern bita svo þetta er smekksatriði (ég var með 350 g af humri, setti 2 bita á hverja sneið og úr urðu 18 stykki).
  4. Kryddið humarinn með sítrónupipar og salti.
  5. Rúllið brauðinu þétt utan um humarinn og leggið hann til hliðar með samskeytin niður.
  6. Hellið smjörblöndunni á disk með uppháum köntum og veltið hverjum bita létt upp úr blöndunni (varist að bleyta bitana of mikið en þó þannig að þeir þekist alveg.
  7. Raðið bitunum á ofnskúffu íklædda bökunarpappír og bakið í um 12-15 mínútur við 200°C eða þar til þeir gyllast og verða stökkir að utan.
  8. Best að taka bitana strax af smjörpappírnum og raða á pappír til að koma í veg fyrir þeir liggi og linist upp í smjörinu sem eftir situr.
  9. Berið fram með E. Finnsson hvítlaukssósu og salati.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert