Frauðplast bannað í New York

New York-borg hefur stigið mikilvægt skref í umhverfismálum en frá og með 1. janúar eru einnota frauðbox bönnuð í borginni. Við erum að tala um þessi klassísku hvítu sem notuð eru undir skyndibitamat og kaffi.

Einnig er búið að banna frauðkúlur eins og notaðar eru þegar hlutum er pakkað í kassa.

Einhverjar undantekningar eru frá banninu. Þannig má enn þá pakka matvælum í frauðplast hjá framleiðanda undir ferskvöru á borð við hrátt kjöt og fisk.

Næst verður ráðist í að banna frauðplast eins og er í stórum pakkningum (utan um stór heimilistæki og þess háttar) en tímabilið fram til 30. júní er hugsað sem aðlögunartímabil en eftir þann tíma verður sektað fyrir brot á lögunum.

Heimild: NYC Department of Sanitation

mbl.is