Helstu mistökin sem fólk gerir á ketó

mbl.is/cooksillustrated.com

Nú þegar flestir eru með mataræði sitt í naflaskoðun og ansi margir eru að stíga sín fyrstu skref í ketó mataræðinu lék okkur forvitni á að vita hver helstu mistökin sem fólk gerir séu. Það er nefnilega oft þannig að litlu atriðin setja allt á hliðina og árangurinn verður lítill sem enginn þrátt fyrir að maður sé búinn að vanda sig óskaplega. 

Ketó-meistarinn Gunnar Már Sigfússon segir að það sé ekki alveg þrautalaust að skipta um orkugjafa fyrir frumur líkamans. „Það er það sem ketó mataræði gengur út á, við hættum að ganga fyrir sykri (glúkósa) og förum að fóðra líkamann að mestu á fitu, bæði frá mataræðinu sjálfu en einnig eigin fituforða, sem er heila málið,“ segir Gunnar aðspurður. 

„Sumir upplifa hina klassísku ketóflensu sem lýsir sér eins og orðið bendir til eins og flensueinkenni en flestir komast hjá henni eða ná sér upp úr henni á nokkrum dögum. Í bókinni fer ég ítarlega yfir það hvað ber að passa svona á fyrstu metrunum til að forðast þetta. Hin mistökin eru í raun að fólk áttar sig ekki alltaf á því að það er fitan sem er orkugjafinn og því ber að passa hana sérstaklega vel. Á hefðbundnu mataræði fær fólk sér bara banana ef vantar upp á orkuna en í ketó er hann ekki í boði svo það er fitan sem fólk verður þá að innbyrða. Góð lausn á orkuleysi á ketó væri til dæmis að fá sér einn góðan ketó kaffibolla eða ketó súkkulaði en það er kaffibolli með kókosolíu og ósöltuðu smjöri sem er skellt í blandarann og bragðast eins og hinn besti latte. Hinn kosturinn er ketó súkkulaði sem auðvelt er að búa til og samanstendur af kókosolíu, smjöri, kakó og sykurlausu sírópi. Allt sett í pott og síðan mót og geymt í íssápnum og notað „í neyð“ eða þannig.“

mbl.is