Ný mathöll í lok febrúar

Grafísk mynd af Mathöllinni.
Grafísk mynd af Mathöllinni. Ljósmynd/Aðsend

„Það er allt komið á fullt og þetta er farið að taka á sig fallega mynd,“ segir Steingerður Þorgilsdóttir, einn eigenda Mathallar Höfða sem opnuð verður í lok næsta mánaðar á Bíldshöfða 9.

„Við ætluðum að opna 15. febrúar en það verður ekki fyrr en í lok mánaðarins, það tekur allt lengri tíma en áætlað var,“ segir Steingerður. Hún er eigandi mexíkóska veitingastaðarins Culiacan á Suðurlandsbraut ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur og sá staður verður einn sjö staða í mathöllinni.

Auk þess munu þær sjálfar reka Svanga Manga þar sem boðið verður upp á íslenskan heimilismat, en slíkt ætti að falla vel í kramið hjá vinnandi stéttum í nágrenninu.

Smurbrauð og morgundjúsar

„Svo verður brugghúsið Beljandi frá Breiðdalsvík hluti af bás Svanga Manga og tekur við þegar honum hefur verið lokað á kvöldin. Þau koma með kútana beint frá Breiðdalsvík, við erum ofboðslega spennt að fá þau,“ segir Steingerður.

Opnað verður í rýminu hægra megin við aðalinnganginn.
Opnað verður í rýminu hægra megin við aðalinnganginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Auk þess verður hægt að gæða sér á hamborgurum frá Gastro Truck, asískum mat frá Wok On og indverskum mat frá Indian Grill sem er afsprengi Gandhi í miðborg Reykjavíkur. Þá er verið að ganga frá samningum við Íslensku flatbökuna. Að síðustu er það svo Hipstur þar sem skandinavísk stemning svífur yfir vötnum og boðið verður upp á smurbrauð, morgundjúsa og ýmsa hollustu- og grænmetisrétti. „Þarna verður matur frá öllum heimshornum,“ segir Steingerður.

„Það verður eitthvað í gangi allan daginn hjá okkur. Þú getur komið og fengið þér morgundjús eða kaffi þegar þú ferð á heilsugæsluna við hliðina á morgnana. Svo verður bakkelsi í kaffitímanum, þetta eru ekki eingöngu matartímarnir,“ segir Steingerður.

Hún segir að alltaf verði líflegt og góð stemning í Mathöll Höfða. „Við verðum með pílukast og ýmsar uppákomur um helgar. Það verður líf og fjör hérna.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »