Geggjað teryaki-burrito með mögnuðu meðlæti

mbl.is/Einn, tveir og elda

Ef það er einhvern tímann tilefni til að taka taco-trylling þá er það í dag. Það er þriðjudagur og þá er ekkert sem á eins vel við og góður mexíkóskur matur. 

Þessi meistarasnilld er úr smiðju Einn, tveir og elda og ætti að gera lífið betra að öllu leyti.

Teriyaki-nautaburrito

Fyrir tvo

Hráefni:

  • 300 g nautakjöt í strimlum (gott að láta það hvíla við stofuhita í 1-2 klst fyrir eldun)
  • 2 stk tortillavefjur
  • 100 g hrísgrjón
  • 50 ml teriyakisósa
  • 50 ml sýrður rjómi
  • ½ rauð paprika
  • 100 g brokkólí

Aðferð:

1. Skerið papriku í þunnar sneiðar og brokkólí í bita. Veltið nautastrimlunum upp úr teryiakysósu og smá pipar og leyfið því að hvíla í sósunni.

2. Hitið 700 ml af vatni í potti að suðu og bætið hrísgrjónum þá út í, sjóðið þau í 15-20 mínútur eða skv. leiðbeiningum á pakka

3. Hitið 2-3 msk af olíu á pönnu. Steikið nautastrimlana í 3-4 mínútur eða þar til fulleldað, eldunartími fer eftir þykkt strimlanna.

4. Bætið grænmetinu út á pönnuna og steikið í 2 mínútur til viðbótar.

5. Hitið tortillakökur á pönnu í um það bil 30 sekúndur á hvorri hlið. Smyrjið sýrðum rjóma í miðja tortilluna, dreifið hrísgrjónum yfir og loks nautakjöti og grænmeti. Njótið vel!

mbl.is