Einfaldur ketó kjúklingaréttur með kennslumyndbandi

mbl.is/Hanna Þóra

Ketó kjúklingur nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir enda hálf þjóðin á ketó. Þegar uppskriftarhöfundar fara skrefinu lengra og framleiða kennslumyndbönd er ekki annað hægt en að gleðjast því það þýðir að það er bókstaflega engin leið að klúðra matnum. 

Það er matarbloggarinn Hanna sem á heiðurinn að þessari snilld en matarbloggið hennar er hægt að nálgast HÉR.

Einfaldur ketó kjúklingaréttur með kennslumyndbandi

Að undanförnu hef ég verið að gera tilraunir með að elda mat í brauðpottum sem ég bý til. Þessi ketó kjúklingaréttur er einmitt ein af þessum tilraunum. Hann er algjörlega frábær, mjög einfaldur og góður og höfðar til breiðs aldurshóps. Það þarf samt að gefa sér smá tíma í þennan rétt þar sem eldunartíminn er u.þ.b. 1½ – 2 klukkustundir. Þegar kjúklingurinn kemur kraumandi úr ofninum helli ég annaðhvort chillimajó eða hvítlaukssósu yfir hann – sósurnar eru ólíkar en báðar mjög góðar. Ég hef yfirleitt gert tvo kjúklinga og þá báðar sósurnar þar sem ekki allir eru sammála um hvor er betri. Þeir sem vilja fara enn þá auðveldari leið geta náð sér í uppáhalds tilbúnu sósuna í ísskápnum og hellt henni yfir. Mæli þó eindregið með að búa til sína eigin. Töluverður vökvi safnast í botni pottsins. Hann blandast svo sósunni þegar henni er hellt yfir – algjörlega nauðsynlegt að gæða sér á henni og hvítlauksrifin eru æði (bara sleppa að borða hýðið)

Forvinna

Mæli eindregið með að búa til sósurnar fyrr um daginn, jafnvel daginn áður (eða tveimur) og eiga í kæli.

Kjúklingur

  • 1 kjúklingur (u.þ.b. 1,8 – 2 kg)
  • Hægt er að nota það krydd sem hverjum og einum þykir gott.  Ég hef t.d. notað Swarma og Mið-Austurlönd (frá Kryddhúsinu), Gyros (fæst venjulega í Tiger) eða Kebab-kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
  • 4 – 8 hvítlauksrif – með hýðinu
  • Saltflögur

Chilimajósósa – sjá uppskrift

  • Fyrir þá sem finnst hún of sterk er bent á að blanda aðeins af grískri jógúrt eða sýrðum rjóma saman við

Hvítlaukssósa með graslauk

  • 30 – 40 g graslaukur – saxaður. Ath. nota rúmlega 20 g í sósuna og afganginn til að skreyta
  • 1 dl rjómaostur
  • 2½ – 3 dl sýrður rjómi
  • 2 tsk. sítrónusafi
  • 2 – 4 hvítlauksrif – pressuð

Aðferð:

Kjúklingur

  1. Ofninn stilltur á 180°C (blásturstilling)
  2. Kjúklingur þurrkaður, kryddaður og settur í leirpottinn (sjá myndband). Mér finnst betra að vera ekki með of stóran pott þannig að kjúklingurinn nái að krauma vel í vökvanum sem rennur af honum
  3. Hvítlauksrifin – sett hér og þar í pottinn. Ágætt að þrýsta hnífi ofan á hvert rif svo það kremjist aðeins. Lokið sett á pottinn (sjá myndband)
  4. Kjúklingurinn er eldaður í 1½ – 2 klukkustundir (háð þyngd). Lokið er tekið af pottinum síðustu mínúturnar – bara til að fá fallegri lit á kjúklinginn (þarf ekki alltaf). Þeir sem eru óöruggir með eldunina geta stungið kjöthitamæli í bringuna – kjúklingurinn á að vera tilbúinn þegar mælirinn sýnir 78°C
  5. Saltflögum stráð yfir

Chilimajó

  1. Best að búa til heimagert Chilimajó en einnig er hægt að nota tilbúna sósu

Hvítlaukssósa með graslauk

  1. Allt hráefni hrært vel saman – gott að láta sósuna standa aðeins

Framsetning

U.þ.b. 3 dl af sósu hellt yfir heitan kjúklinginn (ég helli ekki allri sósunni yfir heldur ber hana einnig fram með). Kjúklingurinn er borinn fram í pottinum þar sem sósan neðst í pottinum er ómissandi með. Auðvelt er að næla sér í legg eða væng en svo er bara að skera sér bita og hafa sósuskeið með til að hella yfir kjötið og hrísgrjónin.

Skraut: Ef chilimajósósunni er hellt yfir er fallegt að strá chilisneiðum yfir en ef hvítlaukssósan er notuð skreytir mikið að dreifa söxuðum graslauk yfir í lokin.

Meðlæti: Gott með hrísgrjónum en fyrir þá sem aðhyllast ketó er upplagt að hafa ofnsteikt grænmeti. Ferskt og brakandi salat er svo ómissandi með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert