Grillmarkaðurinn lokar í hádeginu

Hrefna Rósa Sætran er einn eigenda Grillmarkaðarins.
Hrefna Rósa Sætran er einn eigenda Grillmarkaðarins. Ljósmynd/Aðsend

Rekstraraðilar Grillmarkaðarins hafa ákveðið að loka tímabundið í hádeginu. Segja þeir ástæðuna vera breytt rekstrarumhverfi veitingastaða.

Rennir þessi ákvörðun frekari stoðum undir þá stöðu sem veitingamenn, þá sérstaklega í miðborginni, standa frammi fyrir en mikill fjöldi veitingastaða, slæmt aðgengi og erfitt rekstrarumhverfi hefur valdið miklum titringi í greininni að undanförnu.

Ákvörðun Grillmarkaðarins var tilkynnt á Facebook síðu þeirra og er svohljóðandi:

Kæru vinir.

Vegna breytts rekstrarumhverfis höfum við ákveðið að loka tímabundið hjá okkur í hádeginu á Grillmarkaðnum.

Föstudagurinn 1. mars sem er afmælisdagur bjórsins verður síðasta hádegið okkar í bili og ætlum við í tilefni þess að hafa 50 fyrstu bjórana sem verða pantaðir á 30 ára gömlu verði. Vúhú!

Við verðum líka reglulega með fjölbreytt POP-UP hádegi sem við munum auglýsa vel svo það er sniðugt að fylgja okkur á Facebook og instagram.

Við munum svo galopna í desember svo desemberhádegisfastakúnnar þurfa engar áhyggjur að hafa. Hreindýraborgarinn verður á sínum stað ásamt jóla smakkinu og öllu því. Við ætlum meira að segja að gera betur í desember og opna líka á laugardögum og sunnudögum í hádeginu.

Þessi breyting gefur okkur meira svigrúm fyrir skemmtilega hluti og við erum á fullu að undirbúa happy hour sem mun taka við af hádeginu en við munum segja ykkur betur frá því á næstu dögum.

Hlökkum mikið til að taka á móti ykkur næstu hádegi og stjana við ykkur í happy hour og á kvöldin.Grillmarkaðurinn

mbl.is