Girnilegasta pítsa norðan Alpafjalla

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Ókey - þetta er formlega girnilegasta pítsa sem sést hefur á norðurhveli jarðar frá því um aldamótin. Eða því sem næst. Hún verður prufuð á mínu heimili í kvöld því þrátt fyrir að ég sé oft á tíðum kjánalega fastheldin á mitt meðlæti verð ég að prófa þetta.

Það er enginn annar en Ragnar Freyr Ingvarsson a.k.a. Læknirinn í eldhúsinu sem á heiðurinn að þessu meistaraverki en matarbloggið hans er hægt að nálgast HÉR.

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Ljúffeng flatbaka með steiktu beikoni, sætum döðlum og piparosti í tilefni alþjóðalega pizzudagsins

 • 700 gr hveiti
 • 300 ml volgt vatn
 • 2 msk jómfrúarolía
 • 25 gr ger
 • 25 gr sykur
 • 2 tsk salt


Tómatsósan

 • 1 lítill laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 2 msk jómfrúarolía
 • 1 dós góðir niðursoðnir tómatar
 • 1 msk tómatpúré
 • salt og pipar
 • 2-3 msk hökkuð fersk steinselja/basil

Álegg 

 • Steikt beikon
 • Piparostur
 • Döðlur
 • handfylli af rifnum osti

Aðferð:

 1. Fyrst er það deigið. Setjið hveitið í skál. Svo saltið. Og á eftir því olíuna.Vekið gerið í volgu vatni ásamt sykrinum og þegar að það er búið að freyða í um 15 mínútur er hægt að byrja að hella því varlega saman við. Hnoðið vandlega í fimm til tíu mínútur. Setjið svo viskastykki yfir og setjið til hliðar til að hefast í um klukkustund.
 2. Á meðan deigið er að hefast - útbúið þið tómatsósuna. Steikið fyrst laukinn og hvítlaukinn í olíunni, saltið og piprið. Setjið svo tómatana, púréið og hitið að suðu og látið malla við lágan hita í 15-20 mínútur. Setjið svo kryddjurtirnar, saltið og piprið og blandið saman með töfrasprota.
 3. Svo er bara að fletja út deigið. 
 4. Og það er nú lítið mál þegar maður er með svona liðtækan aðstoðarmann!
 5. Skerið beikon og steikið þar til það er stökkt.
 6. Fjarlægið steininn úr döðlunum og rífið þær niður.
 7. Svo er bara að raða þessari dásemd saman, tómatsósa (má líka vera bara með hvítlauksolíu), stökkt beikon, rifnar döðlur og svo þykkar sneiðar af piparosti.
 8. Bakað í blússheitum ofni þangað til osturinn er bráðnaður og botninn búinn að lyfta sér. 
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is