Klassísk mistök sem uppþvottavélaeigendur gera

Albert Eiríks hefur heldur betur verið iðinn við kolann undanfarið og heillað hvert kvenfélagið upp úr skónum ásamt eiginmanni sínum, óperugoðinu Bergþóri Pálssyni. Þess á milli deilir Albert uppskriftum sínum með þjóðinni á heimasíðu sinni, Albert eldar, sem fékk einmitt nýtt útlit í vikunni. 

Albert veit ansi mikið um margt og hér deilir hann þekkingu sinni á uppþvottavélum og það er ábyggilega ýmislegt hér sem þið vissuð ekki. 

Uppþvottavélar – nokkur tandurhrein atriði: Uppþvottavélar eru langt frá því að vera nýjar af nálinni. Hin bandaríska Josephine Garis Cochrane er höfundur fyrstu uppþvottavélarinnar og fékk einkaleyfi á uppfinningu sinni árið 1886. Uppþvottavélar eru hið mesta þarfaþing en þær þarf að umgangast á ákveðinn hátt og ekki má þvo allt í þeim. Stundum er gott að nýta sér hraðprógrammið en æskilegt er að láta vélina ganga reglulega á lengsta prógramminu. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

Hraðprógramm: Þegar við erum að flýta okkur er upplagt að skola vel í uppþvottavélina og setja á hraðprógramm. Þegar til lengri tíma litið gengur ekki að þvo einungis á hraðprógrammi. Leirtauið og annað nær ekki að verða nógu skínandi hreint og hætta er á að fita safnist í síuna og niðurfallið.

Vandaður þvottur: Til að fá sem bestan þvott er gott að skola það sem á að þvo vel. Bursta af með köldu/volgu rennandi vatni, áður en sett er í vélina. Mín vél hitar vatnið í 55°C, það það tekur hana hálfan annan tíma að ljúka. Með því verður leirtau, bollar, hnífapör og annað tandurhreint. Þegar vélin er búin að þvo og tilkynnir mér það með því að senda mér tóninn, þá opna ég hana strax, dreg grindurnar út og þerra ofan af bollum, glösum og öðru ef þarf. Læt rjúka eins og sagt er.

Extra þvottur: Um það bil einu sinni í mánuði tek ég bakaraofninn og hreinsa hann vel. Spreyja í hann ofnahreinsi og læt standa í um 30 mín. Eftir það fer ég með pottavír á skúffur og grindur ef þarf og tek það mesta. Set síðan í uppþvottavélina á lengsta prógrammið. Á meðan vélin mallar fer ég með pottavírinn í ofninn og hreinsa hann svo vel á eftir. Þegar uppþvottavélin hefur lokið sér af tek ég það sem er eftir af óhreinindum á grindum og skúffum með pottavír og skola svo vel. Nokkrum sinnum á ári fer sigtið úr viftunni fyrir ofan eldavélina í extra þvottinn.

Nokkur atriði:

-Það er mjög óæskilegt að opna uppþvottavélar meðan á þvotti stendur

-Muna að skola sigtið reglulega

-Þrífa meðfram hurðinni reglulega

-Ef vélin er ekki alveg full er ágætt að hvolfa ofnskúffunni yfir og þvo hana með.

-Þvo uppþvottaburstann reglulega í uppþvottavélinni

-Skolum alltaf matarleifar af áður en við setjum í vélina.

-Ef þið eruð að þvo létt plastmál eða -box er ágætt að leggja grindina úr ofninum yfir svo þau feykist ekki um alla vél.

-Látið uppþvottavélina reglulega á „fullt“ prógramm. Það losar fitu og annað úr affallinu.

-Matar- og kaffistell með gyllingu þola fæst fullt prógramm með mikilli sápu.

-Beittir hnífar í vélina? Já það er í lagi að setja beitta hnífa í uppþvottavélina, passa verður að hnífarnir séu skorðaðir vel svo bitið fari ekki úr þeim ef þeir nuddast við stál eða annað.

Hvað má ekki fara í uppþvottavélina? Teflonpottar og -pönnur, ferðakaffimál, trébretti, koparpottar og -pönnur.

Edik eða ekki edik? Edik er í tísku sem hreinsiefni um þessar mundir og sumir mæla með að nota það í stað þvottaefnis í vélina. Það er nú ekki æskilegt að gera það reglulega. Edik hefur ætandi áhrif á gúmmíið í vélinni. Stöku sinnum er þó í lagi að þvo með ediki.

Uppþvottavélina þarf að þrífa reglulega, það geta safnast óhreinindi í síuna og meðfram hurðinni og í framhaldinu kemur mikill fnykur. Sían er einfaldlega tekin úr og þrifin vandlega með heitu sápuvatni.

Eldhúsvörur fyrir Fasteignablaðið Mynd no 3
Eldhúsvörur fyrir Fasteignablaðið Mynd no 3 Árni Sæberg
mbl.is