Staðirnir sem flestir gleyma að þrífa

Ertu með öll atriðin á hreinu hvað þrif varðar?
Ertu með öll atriðin á hreinu hvað þrif varðar? mbl.is/Kim Lucian

Heimilið er griðarstaður sem við þurfum að huga að. Við komumst ákveðið langt á yfirborðsþrifum en þau duga ekki til lengdar. Það er margt sem við reynum að komast hjá eins og að þrífa gluggatjöldin, símann og fjarstýringar sem eru frábært athvarf baktería – og ekki má gleyma uppþvottavélinni og kaffikönnunni. En skoðum aðeins önnur atriði sem gott er að hafa í huga þegar þrif-bústið hellist næst yfir okkur.

Hvernig lítur tannburstaglasið þitt út? Eru burstarnir geymdir í glasi sem ekki sést í gegnum svo að gamlar tannkremsleyfar og bakteríur fá að grassera þar að vild? Við mælum með að þrífa glasið í það minnsta einu sinni í mánuði.

Við gerum fastlega ráð fyrir því að þú skúrir gólfið reglulega. En hversu oft þurrkar þú af gólflistum eða hurðarkörmum? Mjög algengir staðir sem fólk gleymir að renna yfir með tuskuna.

Hurðarhúnar og handföng eru mikilvæg að þrífa og þá sérstaklega á árstíma sem þessum þegar hálf þjóðin liggur í flensu.

Prófaðu að lyfta sessunum upp í sófanum heima hjá þér – við lofum að það mun koma á óvart hvað leynist þar. Hér má endilega draga fram ryksuguna og leyfa henni að vinna fyrir sér.

Bak við klósettið er oftar en ekki staður sem á það til að gleymast. Ekki beint það skemmtilegasta en hér þarftu að skella þér á fjóra fætur og teygja þig á bak við postulínið.

Það er kominn tími til að rífa ísskápinn fram sem og aðrar eldhúsgræjur. Matarleifar og margt annað sem þig óraði ekki fyrir er þar að finna.

Hversu oft hefur þú þrifið símann eða fjarstýringarnar á heimilinu?
Hversu oft hefur þú þrifið símann eða fjarstýringarnar á heimilinu? mbl.is/Aparment Therapy
mbl.is