Eyjan er hjartað í eldhúsinu

Berglind Hreiðarsdóttir
Berglind Hreiðarsdóttir Haraldur Jónasson/Hari

Berglind Hreiðars er einn þekktasti matarbloggari landsins og mögulega einn færasti heimilisbakari sem sögur fara af. Kökurnar hennar vekja mikla aðdáun og hún hefur verið dugleg að halda skemmtileg námskeið. Að auki heldur hún úti heimasíðunni Gotterí & gersemar þar sem er að finna ógrynni uppskrifta. Berglind á æðislegt eldhús sem hún hannaði sjálf og miðar algjörlega að hennar matreiðsluþörfum.

Hvað er best við eldhúsið þitt? Eyjan er það besta, hún er stór og allir geta undirbúið mat og eldað saman án þess að það sé þröngt.

Uppáhalds heimilistækið? Án efa hrærivélin!!! Því það er mjög mikilvægt að hafa slíka vinnukonu við höndina þegar maður er mikið að baka og elda eins og ég, veit hreinlega ekki hvernig ég færi af án hennar.

Mikilvægasta eldhúsáhaldið? Ostaskerinn. Af því hér er skorinn ostur oft á dag. Við erum búin að eiga sama ljóta ostaskerann síðan við byrjuðum að búa fyrir um 20 árum .

Hannaðir þú það sjálf? Já, við hönnuðum eldhúsið sjálf og RH innréttingar sem því miður eru hættir starfsemi sérsmíðuðu innréttingarnar.

Hvert var uppleggið? Við keyptum húsið fokhelt árið 2013 og hugsuðum við (aðallega ég) út í hvert smáatriði í eldhúsinu og ég vissi nákvæmlega hvernig ég vildi hafa þetta. Ég vildi hafa risastóra eyju þar sem hægt væri að elda, baka og undirbúa veislur. Ég var hörð á því að vilja tvo ofna sem er mesta snilld í heimi, búrskáp til að fela brauðrist, hraðsuðuketil, blandara, sodastream, örbylgjuofn og fleira. Þar sem eyjan var stór (um 3,5 m á lengd og 1,2 m á breidd) þá vildi ég líka fá hillur, skápa og skúffur í hana nánast allan hringinn því annars myndi hún virka of iðnaðarleg. Ég endaði á að keyra tvisvar sinnum til Keflavíkur til að útskýra þessar sérþarfir mínar allar fyrir innréttingasmiðunum en það klárlega borgaði sig því eyjan er alveg fullkomin.

Hvað einkennir vel hannað eldhús? Að auðvelt sé að athafna sig, ná greiðlega til helstu tækja og tóla, að skipulagið henti fyrir fjölskylduna og eldhúsið líti snyrtilega og stílhreint út.

Hvað er mikilvægast? Að lauma skápum og skúffum á sem flesta staði svo innréttingin rúmi það sem þarf því það er merkilega margt sem á heima í eldhússkápunum.

Hverju má alls ekki gleyma? Einum skáp með nokkrum hillum sem snúa lóðrétt til að stúka af og flokka bökunarplötur, ofnskúffur, ofngrindur, alla trébakka og bretti. Fyrir manneskju eins og mig sem get endalaust á mig bökkum og brettum bætt er slíkt mikilvægt, auðvelt að fletta í þeim og velja úr til að nota.

Hvað er skemmtilegast að elda? Þessari er erfitt að svara þegar maður vinnur við að elda og baka og finnst allt svo gaman. Ætla að leyfa mér að segja heimabakaðar pítsur og piparkökur þó svo það sé alls ekki merkilegur matur. Það er svo gaman þegar öll fjölskyldan kemur saman við eyjuna og útbýr matinn saman.

KitchenAid vélin er í mestu uppáhaldi hjá Berglindi.
KitchenAid vélin er í mestu uppáhaldi hjá Berglindi. Haraldur Jónasson/Hari
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »