Með fiskibeinamunstur á eldhúsveggnum

Við fengum að kíkja í nýuppgert eldhús sem vakti athygli okkar fyrir frumlegheit. Eldhús sem hefur fengið yfirhalningu að smekk íbúa og stórkostlega fallegt fiskibeinamunstur skreytir vegginn – sem gerir heilmikið fyrir rýmið. Hér búa Svava Þorleifsdóttir landslagsarkitekt og Narfi Þ. Snorrason ásamt börnunum sínum þrem.

Hvað er eldhúsið stórt og hvenær var það innréttað?

Eldhúsið og borðstofan eru samanlagt 21 fermetri. Innréttingin er um 12 ára gömul en fékk yfirhalningu fyrir rúmu ári. Við fluttum í húsið fyrir u.þ.b þremur árum og fórum þá í ýmsar framkvæmdir, en sáum ekki ástæðu til þess að skipta eldhúsinnréttingunni út fyrir nýja þar sem hún var í góðu ástandi. Ákváðum þess í stað að færa það nær okkar stíl með smá lagfæringum og einföldum lausnum.

Hvernig gengu framkvæmdirnar?

Framkvæmdirnar gengu vel, en við vildum fá aðeins meiri léttleika inn í rýmið og tókum því niður efri skápa og dökkar flísar sem voru á veggjunum. Við létum filma neðri skápa innréttingarinnar í grábláum lit og veggskápana í hvítum lit. Fiskibeinaflísalögnin var örlítið flóknara verk og það tók marga daga að flísaleggja vegginn en við erum mjög sátt með útkomuna. Við ætluðum okkur að setja hillur á vegginn en hættum við það og leyfðum fiskibeinamynstrinu að njóta sín. Það var aftur á móti nauðsynlegt að setja ljós á vegginn til þess að tryggja góða lýsingu. Næst á dagskrá er að skipta borðplötunni út fyrir náttúrustein.

Hvaðan kom hugmyndin að fiskibeinamunstrinu?

Ég fæ flestar mínar hugmyndir af Pinterest og hef örugglega séð eitthvað svipað þar.

Notið þið eldhúsið mikið?

Við notum það mjög mikið þar sem við höfum mjög gaman af því að elda góðan mat.

Hvað er það besta við eldhúsið?

Eldhúsið er algjör miðpunktur heimilisins og tengist öðrum rýmum hússins mjög vel. Okkur finnst það vera mikill kostur að eldhúsið opnist inn í borðstofuna. Skipulag og vinnupláss er líka mjög gott.

Uppáhaldshlutur í eldhúsinu?

Ætli það sé ekki ítalska kaffikannan, hún stendur allavega alltaf fyrir sínu.

Hvaðan eru græjurnar?

Eldhústæki: Miele og Gram.

Innrétting: HTH.

Háfur: Ikea.

Loftljós: PH5 yfir eldhúsborðinu og vegglamparnir eru frá Heimili og Hugmyndir.

Stólar: Charles Eames.

Skrautmunir: Bollar frá Royal Copenhagen, Bitz og Ernu Skúladóttir leirlistakonu. Skálar frá Sigríði Helgu leirlistakonu. Blómavasar frá Fakó. Arne Jacobsen-veggklukka.

Annað: Borðstofuborðið er samsett úr búkkum frá HAY og eikarplötu frá Rustica.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert