„Brussuvænt“ eldhús Berglindar

Berglind Guðmundsdóttir er einn ástsælasti matgæðingur landsins og heldur úti heimasíðunni Gulur, rauður, grænn og salt. Það er því nokkuð ljóst að slík kona þarf gott eldhús til að vinna í. Berglind hefur undanfarna mánuði verið að endurnýja eldhúsið eftir kúnstarinnar reglum. Útkoman er algjörlega frábær og Berglind sjálf er í skýjunum. Litapallettan er æðisleg og ég er ekki frá því að messingplatan upp við svarta borðplötuna og fagurbleikan vegginn sé eitt það fallegasta sem sést hefur.


„Ég keypti mér fallega hæð í Laugardalnum og mér leið samstundis eins og ég væri komin heim. Húsið er frá 1950 og það var upprunarlegt útlit íbúðarinnar sem heillaði mig og ég ætlaði engu að breyta. Hinsvegar er það nú þannig að þegar maður flytur í svona gamalt þar sem litlu hefur verið breytt frá upphafi hefur það oft runnið sitt skeið á enda þrátt fyrir mikinn sjarma. Eldhúsið var lítið og kallaði á endurbætur. Breytingarboltinn byrjaði svo að rúlla þegar vinkona mín sem er arkitekt kom í heimsókn og stakk upp á því að ég myndi færa eldhúsið í stærra rými. Áður en ég vissi var íbúðin orðin fokheld.“

„Fyrst og fremst vildi ég að eldhúsið væri rúmgott og gæti verið staður þar sem fjölskylda og vinir kæmu saman og liði vel. Annað sem ég hafði í huga var að mig langaði að það endurspeglaði minn karakter. Smá „bold“ og smá „bling“. Svo þróaðist þetta bara á löngum tíma. Annað sem var mjög mikilvægt var að eldhúsið myndi þola mikla notkun og væri „brussuvænt“.“

Mikill valkvíði

„Ég var eflaust hræðilegur viðskiptavinur – þakka fyrirtækjunum sem ég átti í viðskiptum við fyrir þolinmæðina – ég skipti mjög oft um skoðun. Það er líka svo margt fallegt í boði að mesta áskorunin var að velja stefnu og halda sig við hana. Eldhúsinnréttingin er úr Ikea og heitir Lerhyttan – mér fannst þetta afslappaða sveitaútlit heillandi, látlaust og fallegt og bjóða upp á að koma með sterka liti á móti. Ég er líka mjög ánægð með að hafa haft hana svarta.“

„Hvað borðplötuna varðar þá varð hún að vera slitsterk og passa vel við innréttinguna. Eftir smá rannsóknarvinnu og ráðgjöf valdi ég dásamlega granítplötu frá Granítsmiðjunni sem heiti Absolute black og er með nokkurs konar leðuráferð. Hún er svo falleg og ég strýk hana á hverjum degi.“

Fann litinn í peysu

„Það er gaman að segja frá því hvernig litavalið þróaðist. Þið hafið kannski heyrt um lit ársins sem málningarbúðirnar auglýsa. Hjá mér var það litur mínútunnar. Ég skipti ört um skoðun og var í tómum vandræðum þar til ég kíkti í heimsókn í Sérefni og fékk mér kaffi með henni Árnýju sem er eigandi verslunarinnar. Ég fór á gott flug í samræðum með henni og við fórum í gegnum allan litakvarðann. Hún leyfði mér að rasa út. Þegar ég var búin að tala mig í kaf og var við það að gefast upp horfði ég á hana og sagði: „Mér finnst peysan þín svo falleg á litinn. Hvað um að hafa eldhúsið í þessum lit? Þá fórum við á nýtt flug og hún kom með nokkra liti sem voru svipaðir og peysan og ég endaði á að velja Intense Marseille sem ég kalla bara litinn hennar Árnýjar og er fallegasti vínrauður sem ég hef séð. Eftir að ég hafði valið hann kom Árný með annan lit sem hún sagði að myndi smellpassa með þessum og hann heitir Restful Melun og er ljós grábleikur – svo fallega bleikur og alveg laus við að vera væminn. Þessa tvo notaði ég svo á veggina.“

„Eftir að eldhúsið var tekið í notkun varð hinsvegar ljóst að ég varð að hafa eitthvað á veggjunum til að verja þá fyrir fitu og öðrum óhreinindum sem tengjast eldamennsku. Ég fékk hana Sæju innanhússhönnuð til að veita mér ör-ráðgjöf í upphafi ferilsins og mundi eftir því að hún hafði sýnt mér myndir af messing plötu. Það tók mig reyndar smá tíma að finna út úr því hvar ég fengi slíka plötu, komst svo að því að þær fengjust í Málmtækni. Messingplatan smellpassar við fallega vínrauða litinn og svo breytist hún með tímanum og fær „rustic“-útlit sem mér finnst svo fallegt.“

Fann draumaljósið

„Það var síðan furðu auðvelt að velja ljós. Ég rakst á þessa gullfallegu ljósakrónu hjá einum snillingnum á Instagram og kolféll fyrir henni. Ég komst að því að hún var keypt í Rafkaupi. Hún er til í nokkrum litum meðal annars gylltum en ég ákvað að taka hana í svörtu. Reyndar þurfti ég að bíða smá eftir henni þar sem hún rýkur út um leið og hún kemur í verslunina en ég sá ekki eftir því. Yfir innréttinguna valdi ég svo fallega svarthrímuð ljós sem fást líka í Rafkaupi. Ég má til með að mæla með nýrri vefverslun Rafkaups, það var ótrúlega þægilegt að geta séð allt úrvalið þar.“

„Vaskinn fékk ég í Granítsmiðjunni og er hann límdur undir borðplötuna – mamma sagði að það væri algjörlega málið og ég hlýddi því. Blöndunartækin eru frá Grohe og ég fékk þau í Byko. Ég er með fallegt útsýni við eldhúsvaskinn og vildi því hafa blöndunartækin látlaus og falleg þannig að útsýnið héldist óskert. Ég er hæstánægð með þau og finnst þau passa vel við heildarútlitið.“

„Nýja eldhúsið reynist mjög vel og er mest notaða rýmið á heimlinu. Það eru nokkur atriði sem ég á eftir að klára. Mig vantar meira geymslupláss og ætla að láta hvíta fljótandi skápa sem hægt er að loka á einn vegginn. Bæði til að geyma þurrvöru, matarstell og þrifdót. Næsta á dagskrá er að fjárfesta í góðri uppþvottavél – draumurinn er að eignast vél svipaða og Berglind Sigmars á en það er uppþvottavél fyrir iðnaðareldhús. Ég elda svo mikið og finnst fátt leiðinlegra en að vaska upp þannig að þetta myndi leysa margt. Einnig á ég eftir að kaupa stóran kæliskáp. En þetta kemur allt saman og það er líka skemmtilegast að leyfa hlutunum að mjatla. Allt hefur sína tímasetningu.“

Framkvæmdirnar tóku á

„Að fara út í svona framkvæmdir er langdregið og erfitt ferli. Heimilið er griðastaður og það sem var erfiðast var að meðan á þessum framkvæmdum stóð var líka álag á öðrum vígstöðvum. Það að koma þreyttur heim í ryk tók satt best að segja mjög mikið á. En það er gaman núna að hafa afrekað þetta. En enginn er eyland og ég hefði ekki getað þetta nema fyrir góða hjálp frá mömmu og Árna bróður og góðum vinum. Ég var einnig mjög heppin með iðnaðarmenn sem er svo langt frá því að vera sjálfsagt.“

„Ég ráðlegg fólki hiklaust að fara í verslanirnar og tala við fagfólkið – það sparar ómældan tíma og vinnu. Þetta dásamlega fólk leiddi mig áfram og hjálpaði mér að fá útkomuna sem ég óskaði eftir.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »