Ketómeðlætið sem allir elska

mbl.is/Hanna

Hér erum við með snilldaruppskrift að rétti sem bæði mætti nýta sem aðalrétt og meðlæti. Uppskriftin er upphaflega komin úr frönsku tímariti en búið er að betrumbæta hana eftir kúnstarinnar reglum þannig að núna er hún einnig ketóvæn.

Það er Hanna sem á heiðurinn að uppskriftinni en hún segir að hægt sé að útbúa réttinn fyrr um daginn og jafnvel fullelda og hita svo bara upp um kvöldið. Hvort heldur sem er sé rétturinn algjört æði.

Matarbloggið hennar Hönnu er hægt að nálgast HÉR.

mbl.is/Hanna
Gratinerað grænmetisketó
 • 800 g sambland af kúrbít/graskeri/blómkáli
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 egg
 • ½ dós sýrður rjómi (90 g)
 • 100 g rifinn ostur
 • U.þ.b. 4 msk. olía fyrir steikingu og smurningu á eldfasta fatið
 • Salt og pipar

Verklýsing

 1. Kúrbítur og blómkál skolað og biti af graskeri flysjaður. Allt skorið í tiltölulega þunnar sneiðar. Hvítlaukur saxaður. Olía hituð á pönnu og hvítlaukurinn látinn malla aðeins í olíunni. Grænmetinu bætt við og steikt á meðalhita í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til allt grænmetið hefur aðeins mýkst. Saltað og piprað.
 2. Ofninn hitaður í 180°C (yfir- og undirhiti).
 3. Eldfast mót smurt með olíu og grænmeti dreift yfir fatið. Mér finnst fallegt að raða lagi af sömu grænmetistegund í fatið en það er smekksatriði.
 4. Egg, sýrður rjómi og rifinn ostur sett í skál og pískað saman (blandan er frekar þykk). Blöndunni smurt yfir –  piprað og saltað.
 5. Sett í ofninn og bakað í u.þ.b. 35 mínútur.

Ath. Það ræðst svolítið af þykktinni á grænmetinu hversu langur bökunartíminn er. Ef sneiðarnar eru þykkar tekur það lengri tíma.

Á vel við með ýmsum kjöt- eða fiskréttum eða bara eitt og sér.

mbl.is/Hanna
mbl.is