Danska kjötið ljúft undir tönn

Almar Ingvi Garðarsson, eigandi og veitingastjóri, og Guðmundur Víðir Víðisson, …
Almar Ingvi Garðarsson, eigandi og veitingastjóri, og Guðmundur Víðir Víðisson, eigandi og yfirkokkur. Ásdís Ásgeirsdóttir

V ið bjóðum líka upp á grænmetis- og veganrétti, þótt aðaláherslan sé á kjöt,“ segir Almar Yngvi Garðarsson, einn eigenda og veitingastjóri á Reykjavík Meat.

„Við bjóðum upp á marga parta af nautinu og erum líka með lamb. Kjötið er frá Íslandi, Ástralíu og víðs vegar úr Evrópu en mest kaupum við frá Danmörku, svokallað Sashi kjöt. Það er mjög fitusprengt og gott. Ég er hrifnastur af því, það er ljúft undir tönn og selst betur en íslenska kjötið,“ segir hann.

„Við höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur við því kjöti enda er gaman að prófa eitthvað nýtt.“

Vantaði steikarstað

Stærsti eigandi staðarins, Stefán Magnússon, rekur einnig Mathús Garðabæjar og Nü Asian Fusion. Reykjavík Meat er nýjasti staðurinn hans en opnað var í haust eftir langan og mikinn undirbúning.

„Það er mikill metnaður lagður í þennan stað; ekki síst umhverfið. Hér er pláss fyrir 120 manns í sæti þegar mest er, en yfirleitt eru hér um 80-90 manns í hverju setti á kvöldin. Básarnir hér eru mjög vinsælir en við sóttum hugmyndir til bandarískra steikarstaða. Okkur fannst vanta góðan og flottan steikarstað á Íslandi. Starfsfólkið hér er margt frá gömlu Argentínu; ég segi oft að þau séu fædd á grillinu,“ segir Almar og brosir.

Íslendingar aðalgestirnir

Almar segir langstærstan hluta viðskiptavina vera Íslendinga en býst við að ferðamönnum fjölgi með vorinu. Það hefur verið nóg að gera síðan staðurinn var opnaður og greinilega margir sem kunna að meta góða steik að sögn Almars.

„Fólk kemur líka í hádeginu og algengt að fólk noti hádegið hér til að borða og funda en við erum með góð hádegistilboð og hér er róleg stemning. Svo erum við með þannig matseðil að þú velur sjálfur meðlætið með steikinni. Fólk tekur vel í það. Við bjóðum líka upp á vín á mjög sanngjörnu verði,“ segir Almar að lokum.

Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert