Vegan rjómabollur að sænskum sið

mbl.is/Veganistur

Veganisturnar eða vegansysturnar Helga María og Júlía Sif eru hér með ótrúlega spennandi uppskrift að sænskum bollum sem kallas semlur og líta hreint stórkostlega út.

Um bollurnar segja þær: „Okkur finnast sænsku bollurnar æðislegar. Deigið er eins og af gerbollunum sem við þekkjum, en þau setja mulda kardimommu út í bolludeigið sem okkur finnst alveg svakalega gott. Á Íslandi erum við vön að borða bollurnar okkar með sultu, rjóma og glassúr, en Svíarnir borða sínar fylltar með möndlumassa og rjóma og strá flórsykri yfir.“

Hægt er að fara inn á matarblogg Veganistanna HÉR.

Sænskar semlur

  • 2 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr. smjörlíki

  • 2 tsk. þurrger + 1 tsk. sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk. vanilludropar

  • 1 tsk. mulin kardimomma

  • 50 gr. sykur

  • 250 gr. hveiti

  • Smá jurtamjólk til að pensla með

Aðferð:

  1. Hitið mjólk og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað og hrærið í á meðan. Hellið blöndunni svo í skál og leyfið að standa þar til hún er við líkamshita, eða um 37°C.

  2. Stráið þurrgerinu yfir ásamt 1 tsk. sykri og leyfið að standa í 10 mínútur.

  3. Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman. Ef deigið er of blautt blandið við það smá meira hveiti á meðan þið hnoðið þar til þið fáið rétta áferð. Deigið á að vera svolítið blautt, en þó auðvelt að meðhöndla án þess að það festist við fingurna. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og sprungulaust.

  4. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í alla vega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Passið að hafa bollurnar ekki of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. það komu 10 bollur úr uppskriftinni hjá mér í dag, en þær voru svona meðalstórar. Ég gerði aðeins minni bollur í fyrra og þá komu alveg 14 bollur hjá mér. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í alla vega hálftíma í viðbót, penslið þær svo með plöntumjólk og bakið í 15 mínútur við 180°C.

Möndlumassi

  • 5 dl möndlumjöl

  • 3 dl flórsykur

  • 5 msk. aquafaba (það er vökvinn sem fylgir með kjúklingabaunum í dós)

  • 2-3 msk. plöntumjólk eða vegan rjómi

  • Pínu möndludropar. Ég setti í litlu kryddskeiðina mína sem er 1 ml

Aðferð:

  1. Hellið öllu í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið þar til mjúkt. Þetta á að vera þykkt, en þó auðvelt að meðhöndla.

  2. Leyfið að standa við stofuhita. Ég setti þetta strax í sprautupoka sem gerði það auðvelt að fylla bollurnar.

Bollan sett saman

  • Bollurnar

  • Möndlumassinn

  • 1 ferna Alpro-jurtarjómi

  • Flórsykur

Til að setja saman bollurnar klippti ég þríhirning úr lokinu og tók aðeins innan úr. Svo sprautaði ég möndlumassa inn í, sprautaði svo þeyttum rjóma yfir, lagði lokið á og sigtaði flórsykur yfir. Það er að sjálfsögðu líka hægt að skera þær í tvennt, en svona gera Svíarnir þetta svo ég ákvað að slá til, mest upp á lúkkið he he.

mbl.is/Veganistur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert