Allt starfsfólk veitingastaðar gekk út og hætti

mbl.is/Thinkstockphotos

Við höfum öll heyrt um slæma yfirmenn en ástandið þarf að vera verulega slæmt til þess að allir starfsmennirnir segi upp í einu eins og gerðist, ekki bara á einum stað heldur þremur. 

Um er að ræða skyndibitastaðinn Sonic, atburðurinn átti sér stað í Ohio-ríki en nýir eigendur tóku við stöðunum. Ástæður uppsagnanna eru að sögn starfsmannanna að launin voru lækkuð úr 8,55 dollurum á tímann, sem eru lögbundin lágmarkslaun í ríkinu, niður í fjóra dollara auk þjórfjár. 

Þótt þjórfé sé almennt greitt á veitingastöðum í Bandaríkjunum á það sjaldnast við um skyndibitastaði. Því verður ekki annað sagt en að um gróft brot sé að ræða.

Almannatengsladeild Sonic gaf út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem bent var á að vegna þjórfjárins væri ekki um neina raunverulega skerðingu að ræða. Þessu mótmæla starfsmennirnir með áðurgreindum rökum um að viðskiptavinir skyndibitastaða borgi sjaldnast þjórfé. 

Málið hefur vakið hörð viðbrögð og hefur fólk verið hvatt til að hundsa veitingastaðinn nema hann dragi lækkunina til baka. 

Hér má sjá miðann sem starfsmennirnir skildu eftir.
Hér má sjá miðann sem starfsmennirnir skildu eftir. mbl.is/skjáskot
mbl.is/skjáskot
mbl.is