Bláberjadraumur með hvítu súkkulaði og lakkrís

Bláberjadraumur eins og hann gerist bestur.
Bláberjadraumur eins og hann gerist bestur. mbl.is/Winnie Methmann

Þessi kaka smakkast ekki bara eins og draumur – hún er líka það falleg að erfitt er að standast. Hér bjóðum við upp á bláberjaköku með sætuna úr hvíta súkkulaðinu, ferska bragðið úr bláum berjum og eitthvað ómótstæðilegt með lakkrísduftinu. Athugið að kakan þarf að hvíla í 6 tíma í kæli.

Bláberjadraumur með hvítu súkkulaði og lakkrís

  • 4 matarlímsblöð
  • 300 g hvítt súkkulaði
  • 750 g rjómi

Lakkrískexbotn:

  • 100 g Digestive-kex
  • 50 g sykur
  • 1 tsk. lakkrísduft
  • Salt á hnífsoddi
  • 50 g smjör
  • Smelluform, 24 sm
  • Bökunarband (til að tryggja jafnari bakstur)

Bláberjafylling:

  • 200 g hvítt súkkulaði
  • 100 g frosin bláber
  • 2 dl rjómi
  • 2 tsk. sítrónusafi
  • 1 vanillustöng

Skraut:

  • Fersk bláber
  • Hvítt súkkulaði
  • Lakkrísduft

Aðferð:

  1. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í 10 mínútur. Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Hitið rjómann í potti að suðu, hellið yfir súkkulaðið og hrærið í þannig að súkkulaðið bráðnar. Kreistið vökvann úr matarlímsblöðunum og hrærið þeim út í súkkulaðikremið. Setjið plastfilmu yfir skálina og setjið í kæli í 2-3 tíma, þar til kremið er stíft.
  2. Lakkrískexbotninn: Klæðið botninn á bökunarmótinu með bökunarpappír og setjið bökunarbandið á hliðarnar. Hrærið kexi, sykri, salti og lakkrísdufti saman í matvinnsluvél. Bræðið smjörið við vægan hita og hrærið saman við brotna kexið. Pressið kexblöndunni vel niður á botninn á bökunarmótinu og setjið í kæli í 1 klukkustund.
  3. Takið súkkulaðikremið úr kæli og hrærið í því með þeytara þar til blandan verður létt í sér. Smyrjið á kexbotninn og setjið aftur inn í kæli í 2 tíma (eða yfir nótt).
  4. Bláberjafylling: Bræðið súkkulaðið varlega í skál yfir vatnsbaði. Setjið frosnu berin í lítinn pott og látið sjóða þar til þau þorna, notið þá töfrasprota til að mauka berin niður. Hellið rjóma, sítrónusafa og vanillukorn út í bláberin í pottinum og látið sjóða. Hellið því næst blöndunni yfir súkkulaðið og blandið varlega saman með sleif þar til blandast vel saman. Smakkið til með sítrónusafa og notið aftur töfrasprotann hér til að búa til góðan massa. Smyrjið bláberjafyllingunni yfir kökuna og setjið í kæli. Skreytið með ferskum bláberjum, hvítu súkkulaði og lakkrísdufti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert