Elskar allt sem tekur stuttan tíma

María Gomez
María Gomez Kristinn Magnússon

María Gomez er einn öflugasti matarbloggari landsins og státar af eldhúsi sem hún hefur lagt nótt við dag við að betrumbæta. Hún lumar á einstaklega snjöllum lausnum og þykir mikill fagurkeri. Við fengum hana til að þess að svara nokkrum bráðnauðsynlegum spurningum um eldhúsið.

Hvað er best við eldhúsið þitt?

Klárlega franska tvöfalda hurðin sem gerir mér kleift að loka að mér þegar ég þarf næði til að elda þegar svoleiðis stendur á. Svo er hún líka bara svo falleg.

Uppáhalds heimilistækið?

Klárlega KitchenAid hrærivélin mín. Þessi elska er búin að fylgja mér í níu ár og vinna mörg erfið hnoðverkin fyrir mig. Mig var líka búið að dreyma svo lengi um að eignast svona hrærivél áður en ég keypti hana svo ég varð alsæl loks þegar ég eignaðist hana og er enn.

Mikilvægasta eldhúsáhaldið?

Ninja blandarinn, ekki spurning. Fyrir manneskju sem er jafn löt og ég að saxa er það algjör snilld að geta hent bara öllu í glas og maukað saman.

Hannaðir þú eldhúsið sjálf?

Nei en eldhúsið mitt er það eina sem við gerðum ekki upp og keyptum nýtt þegar við fluttum inn í húsið en við ákváðum að nýta þann efnivið sem var til staðar og lakka gömlu innréttinguna, skipta út borðplötum og færa til skápa og lengja eyjuna. Ætlum að hafa þetta svona meðan við söfnum fyrir nýju eldhúsi.

Hvað einkennir vel hannað eldhús?

Fyrir mér er vel hannað eldhús þar sem notagildi og fegurð spila fullkomlega saman. Einnig finnst mér að eldhús eigi að endurspegla manns eigin persónulega stíl en ekki eltast við tískustrauma í þeim efnum

Hvað er mikilvægast?

Fyrir mér er það fyrst og fremst gott skápapláss og risaborðpláss en ég hef hvorugt eins og stendur og er daglega að berjast við þrönga skápa sem vellur upp úr og mjög takmarkað borðpláss.

Hverju má alls ekki gleyma?

Eldavél af bestu gæðum sem og bakaraofn en mér finnst eldhústækin skipta miklu máli upp á þegar maður er að elda, gerir allt bæði skemmtilegra og betra. Mig bráðvantar einmitt nýjan ofn núna.

Hvað er skemmtilegast að elda/baka?

Allt sem tekur rosa stuttan tíma en slær samt í gegn, dæmi um það er t.d. kaldhefað brauð og hvílauksostur sem ég geri trilljón sinnum og tekur svo fáranlega stuttan tíma að gera en slær alltaf í gegn.

María Gomez
María Gomez
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »