Kannt þú að baka kleinur?

mbl.is/Salt eldhús

Kleinur eru algjört sælgæti en flest kaupum við þær tilbúnar úti í búð og látum það duga. Hins vegar eru heimabakaðar kleinur eitt það albesta sem hægt er að borða enda fátt betra en stökkar, volgar og splunkunýjar kleinur.

Þessi uppskrift kemur frá Salti eldhúsi sem er jafnframt með frábær matreiðslunámskeið sem við mælum svo sannarlega með. 

Kleinur

 • 1 kg hveiti
 • 100 g sykur
 • 6-8 tsk. lyftiduft
 • 100 g smjör, kalt í bitum
 • 1 vanillustöng, kornin af henni
 • 1 appelsína, börkur af henni
 • 1 sítróna, börkur af henni
 • 1 – 1 ½ tsk. malaðar kardimommur (fer eftir hversu sterkar þær eru)
 • 4-5 dl súrmjólk
 • 2 egg
 • Olía til að steikja upp úr

Aðferð:

 1. Setjið hveiti, sykur og lyftiduft í skál og blandið saman.
 2. Myljið smjörið saman við, þetta má gera í hrærivél með hræraranum. Skafið korn af vanillu úr hýðinu og nuddið saman við 1 msk. af sykri, bætið berki, vanillu og kardimommum í hveitiblönduna.
 3. Sláið eggin saman og bætið í ásamt súrmjólkinni. Hrærið létt saman, ekki ofhræra.
 4. Skiptið deiginu í tvennt og rúllið út á hveitistráðu borði. Skerið í tígla og snúið hverjum tígli upp í kleinu. Hitið olíuna í stórum potti.
 5. Steikið kleinurnar í heitri olíu. Setjið nýsteiktar kleinur á eldhúspappír svo drjúpi mesta feitin af þeim.
 6. Kleinur eru bestar nýsteiktar en mjög gott er að frysta þær og taka út eftir þörfum og hita stutta stund í 130°C heitum ofni.
mbl.is/Salt eldhús
mbl.is