Kjúklingarétturinn sem passar við öll tilefni

mbl.is/María Gomez

Þessi uppskrift er nákvæmlega akkúrat það sem þú þarft á að halda. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem eru svo pakkaðar af góðu bragði að lífið verður betra. Hún passar bæði hversdag og spari. Þannig að þetta er eiginlega bara fullkomin uppskrift.

Svo er hún innblásin frá heimalandi Maríu, Spáni, þannig að það er nóg af exótískri spennu þar á ferðinni.

Matarbloggið hennar Maríu Gomez, Paz.is, er hægt að nálgast HÉR.

Marokkóskur kebab

Fyrir 6

4 kjúklingabringur í kryddlegi (uppskrift að neðan)

6 pítubrauð

2 stk. tómatar

1 rauðlaukur

jalapenjo í krukku (má sleppa)

kál

1 rauð paprika

sósa (uppskrift hér að neðan)

Kjúklingamarineringin

4 dl AB-mjólk gerir kjúklinginn meyran eins og silki

½ dl ólífuolía, mæli með frá Cyrio en hún er bara langbest

1 msk. hunang

1 msk. sítrónusafi

2 msk. Bezt á kjúklinginn-krydd (má alls ekki skipta út)

1 marinn geiralaus hvítlaukur eða 4 hvítlauksrif marin

1 tsk. laukduft (Onion Powder)

1 msk. cumin (passa sig ekki kúmen eins og í kringlum)

½ tsk. cayenne pipar

1 tsk. gróft salt

Hnefi af ferskri steinselju rifinn út í

1. Skerið bringurnar þvert fyrir miðju, þ.e. til að gera eina bringu að tveimur þannig að hver bringa verði helmingi þynnri.

2. Hrærið svo öllum hráefnunum í kryddleginum saman í þeirri röð sem þau eru talin upp.

3. Kaffærið svo bringurnar vel ofan í þannig að þær verði allar þaktar.

4. Best er að láta standa sem lengst í ísskáp en ég lét standa yfir nótt en alls ekki minna en 2 klst.

5. Ég stakk svo grillpinna í miðjuna á bringunum þannig að þær stöfluðust hver ofan á aðra.

6. Svo eru þær lagðar á pinnanum á aðra hliðina á bökunarplötu með bökunarpappa.

7. Eldið svo við 220°C hita með blæstri í 40 mínútur.

Hvít kebabsósa arabakonunnar

  • 350 gr. grísk jógúrt
  • ½ dl tahini hvítt (alls ekki sleppa, alveg bannað)
  • safi úr 1/3 sítrónu eða 1-2 tsk. sítrónusafi
  • 1 msk. hunang
  • ½ geiralaus hvítlaukur marinn eða 2 marin hvítlauksrif
  • 1 – 1,5 tsk. gróft salt

1. Setjið öll hráefnin í blandara og maukið saman í a.m.k. eina mínútu

2. Smakkið til og saltið meira ef þarf og maukið þá aftur vel

3. Sósan á að vera skjannahvít og silkimjúk eins og fallegur rjómaís

Kebab settur saman

1. Ristið pítubrauðin eða bakið í ofni. Mér finnst betra að hafa þau mjúk en ekki stökk

2. Skerið svo kjúklinginn frá endunum í þunnar ræmur eins og er gert við kebabkjöt

3. Setjið svo grænmeti í brauðið og kjúkling eins og þegar píta er gerð

4. Svo þarf að nota nóg af sósu og gott er að setja ferska steinselju með

5. Fyrir þá sem vilja sterkt mæli ég með jalapenjo út á líka

mbl.is/María Gomez
María Gomez á paz.is.
María Gomez á paz.is. mbl.is/María Gomez
mbl.is