Svona heldur þú baðherberginu bakteríulausu

Ætli þau hafi þrifið sturtuna vel fyrir notkun?
Ætli þau hafi þrifið sturtuna vel fyrir notkun? mbl.is/Getty Images

Fara hárin að rísa á handarbakinu þegar þú hugsar út í allar bakteríurnar sem eru í hálfgerðum feluleik inni á baðherbergi? Þá ertu svo sannarlega ekki sá eða sú eina. Sjáðu til þess að eftirfarandi atriði séu á hreinu og þér mun líða betur.

Lokaðu setunni áður en þú sturtar niður
Þetta er afar mikilvæg regla! En það hefur sýnt sig og sannað að bakteríur skjótast í allar áttir ef þú lokar ekki setunni er þú sturtar niður. Hugsaðu þér bara ef einhverjar þeirra ná á handsápuna eða tannburstann þinn.

Tannburstinn á heima í lokuðum skáp
Svona út frá fyrrnefndu atriði þá er mælt með því að stilla tannburstanum inn í lokaðan skáp.

Þvoið hendurnar með sápu
Hendur eiga alltaf að fá vatn og sápu, líka eftir lítið pissustopp. Jafnvel þó að þér finnist þú varla hafa verið í snertingu við klósettsetuna eða önnur handföng.

Taktu skartið af
Sumir sérfræðingar í hreinlætismálum vilja meina að best sé að taka af sér skartgripi eins og hringi þegar þú þværð þér um hendurnar, því litlu bakteríurnar elska að smeygja sér inn undir þrönga staði.

Þrífðu gemsann þinn
Í breskri rannsókn frá árinu 2015 kom í ljós að fleiri bakteríur finnast á farsímanum þínum en á klósettsetunni. Geymdu símann þinn ávallt í vasanum þegar þú ferð á salernið og mundu að þrífa hann reglulega.

Handspritt í töskuna er staðalbúnaður
Hafa ekki allir lent í því að fara á almenningssalerni þar sem vantar sápu eða haugaskítugt handklæði er það eina til að þurrka sér með? Nú eða þurft að stoppa út í vegkanti til að létta á sér í langri bílferð? Lítið handspritt í veskið ætti því að vera staðalbúnaður.

Þvoið tannburstaglasið
Tannburstaglasið á að standa í lokuðum skáp inni á baði og þarf svo sannarlega að fá smá skrúbb annað slagið. Það er alltaf eitthvert tannkrem og munnvatn sem lekur niður í glasið sem þarf að þrífa reglulega.

Mundu eftir tannburstanum
Nýverið fórum við yfir hversu oft á að skipta út tannburstanum. Þegar hann er farinn að láta á sjá og jafnvel skítugur, þá er tími til að skipta honum út.

Ekki drekka vatn úr krananum inni á baði
Þar sem bakteríurnar dreifast hraðar en í öðrum rýmum hússins, ráða hreinlætis-expertar frá því að drekka vatn beint úr krananum inni á baði.

Alls ekki þvo andlitið í baðherbergisvaskinum
Ef þú fyllir vaskinn inni á baði með vatni og þværð þér upp úr því, þá getur þú allt eins notað klósettvatnið – það er jafn mikil bakteríubomba þar ef ekki meira.

Þrífðu baðherbergið einu sinni í viku
Það má þrífa baðherbergið í það minnsta einu sinni í viku ef ekki oftar eftir þörfum, þá sérstaklega salernið sjálft. Dragðu fram klósetthreinsinn og ekki gleyma gólfinu sem ýmslegt fellur á.

Skiptu út klósettburstanum
Burstanum, sem þú notar til að hreinsa klósettið þitt eftir erfiðar stundir, þarf líka að skipta út reglulega svo ekki sé meira sagt.

Snertilausar græjur
Ef þú hefur möguleika á því þá eru snertilausar græjur eins og krani og sápupumpa hin mesta snilld. Þá er engin snerting við sjálf tækin.

Skiptið um handklæði
Eftir góðan handþvott viltu þurrka þér í mjúkt og hreint handklæði og því nauðsynlegt að skipta þeim út reglulega á baðherberginu. Ef þú ert á almenningssalerni er fínt að þurrka sér í pappírsþurrkur því þú veist aldrei hvenær handklæðinu var síðast skipt út og hvaða bakteríur leynast þar.

Forðist að snerta hurðina
Þið getið ekki ímyndað ykkur hvar hreinlætið liggur á baðherbergishurðinni. Hversu oft er hún þrifin? Eins handföng og lásar, mælt er með því að þrífa það í það minnsta einu sinni í viku.

Hann hefur engar áhyggjur af þrifum á baðherberginu.
Hann hefur engar áhyggjur af þrifum á baðherberginu. mbl.is/Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert