Plokkari sem klikkar ekki

mbl.is/Salt eldhús

Ef eitthvað bregst aldrei þá er það plokkfiskur. Hægt er að hafa hann eins einfaldan og kostur er en svo er líka hægt að setja hann í ómótstæðilegan sparibúning á örskotsstundu og án mikillar fyrirhafnar. 

Það er Sirrý í Salti eldhúsi sem á þessa uppskrift sem er alveg upp á tíu!

Plokkfiskur

Plokkfiskur er uppáhald margra og ágætisleið til að nota afganga af fiski og/eða kartöflum. Hér er líka uppskrift að bernaise-sósu sem er svona hátíðarútgáfan af þessum hversdagslega rétti. Þá er gott að hita ofninn í 180°C og e.t.v. sáldra svolitlu af rifnum ost ofan á og baka allt saman í 10-15 mín. 

Fyrir 4

  • 2 msk. smjör
  • 1 msk. olía
  • 1 meðalstór laukur, saxaður fínt niður
  • 2 msk. hveiti
  • 3 ½ dl mjólk
  • 600-800 g soðinn fiskur, má vera blanda af saltfiski og nýjum
  • 600-800 g soðnar kartöflur, skornar í teninga
  • salt og fullt af nýmöluðum pipar

Bræðið smjör og olíu á pönnu eða í potti og svitið laukinn þar til hann fer að verða glær, passið að lækka hitann þegar smjörið hefur bráðnað svo laukurinn brúnist ekki.

Stráið hveiti yfir laukinn og hrærið saman í 1-2 mínútur. bætið mjólk á pönnuna smám saman og hrærið saman í jafning, látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Bætið fiski og kartöflum út í og hrærið saman. Smakkið til með salti og ríkulega af nýmöluðum pipar.

Bernaise-sósa:

  • 125 g smjör
  • 2 eggjarauður
  • 1-2 msk. bernaise essens
  • 1 tsk. estragon
  • sítróna
  • salt eftir smekk

Bræðið smjörið í potti. Setjið eggjarauður og bernaise-essense í skál og þeytið yfir vatnsbaði þangað til eggin eru vel þeytt og þetta er farið að líta út eins og jógúrt. Þegar eggin er tilbúin eru þau tekin af mesta hitanum og smjörinu bætt við í rólegri bunu og pískað á meðan. Bætið estragoni út í og smakkið til með sítrónu og salti. Ef sósan þykknar má bæta 1-2 msk. vatni út í. Ef hún skilur sig er ráð að setja einn ísmola út í og þeyta upp aftur. Ef það gengur ekki má þeyta eina eggjarauðu saman og bæta sósunni í smátt og smátt.

mbl.is/Salt eldhús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert