Kakan sem mun gera páskana enn betri

Hversu krúttleg páskakaka!
Hversu krúttleg páskakaka! mbl.is/Martin Dyrlov

Páskakakan í ár er með kókos og sítrónukremi, skreytt með ristuðum kókosflögum. Fullkomin í páskabrönsinn eða sem eftirréttur. Við mælum með því að gera þessa deginum áður en hún er borin fram.

Páskakaka með kókos og sítrónukremi

Kókosbotnar:

 • 300 g hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 100 g kókosmjöl
 • 4 stór egg
 • ½ tsk. salt
 • 225 g mjúkt smjör
 • 375 g sykur
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 2½ dl kókosmjólk

Sítrónukrem:

 • 4 sítrónur
 • 125 g smjör
 • 4 egg
 • 150 g sykur

Glassúr:

 • 200 g rjómaostur
 • 50 g mjúkt smjör
 • 150 g flórsykur
 • ½ dl kókosmjólk
 • 1 tsk. vanillusykur

Skraut:

 • 75 g ristaðar kókosflögur
 • Lítil marglit páskaegg

Aðferð:

Kókosbotnar:

 1. Látið öll hráefnin sem eiga að fara í botnana vera við stofuhita áður en þú blandar þeim saman.
 2. Sigtið hveiti og lyftiduft saman og bætið kókosmjöli út í.
 3. Skiljið rauðurnar frá hvítunni og pískið hvíturnar þar til mjúkar. Bætið við salti og haldið áfram að píska þar til alveg stífar.
 4. Pískið saman smjör, sykur og vanillu í 2-3 mínútur, bætið þá rauðunum út í einni í einu.
 5. Hrærið hveitiblöndunni og kókosmjólkinni varlega út í deigið til skiptis. Blandið svo stífu eggjahvítunum út í í 2-3 skömmtum.
 6. Setjið deigið í tvö 22 cm smurð smelluform.
 7. Bakið við 170°C á blæstri í 45-50 mínútur. Snúið kökunum og skiptið jafnvel um pláss á þeim eftir 30 mínútur í ofni. Athugið eftir uppgefinn bökunartíma með tannstöngli hvort botnarnir séu bakaðir í gegn og látið kólna á rist.

Sítrónukrem:

 1. Þvoið sítrónurnar og rífið svo ysta lagið af berkinum með rifjárni og pressið safann. Skerið smjörið í litla teninga.
 2. Pískið egg, sykur, sítrónubörk og safa saman í skál yfir vatnsbaði. Pískið þar til kremið verður þykkt og sirka 68°, um 8-10 mínútur.
 3. Takið skálina af vatnsbaðinu og pískið smjörteningana út í, einn í einu, þar til kremið verður slétt. Kælið og setjið inn í ísskáp.

Samsetning:

 1. Takið botnana úr formunum og skerið til helminga. Smyrjið sítrónukremi á milli botnanna og geymið í ísskáp til næsta dags. Gott er að setja botnana aftur í hreint smelluform til að kakan haldist stíf inni í kæli.

Glassúr:

 1. Pískið rjómaost og smjör saman og bætið flórsykri, kókosmjólk og vanillusykri út í. Pískið glassúrinn „léttan“ og setjið í kæli í 30 mínútur.

Skraut:

 1. Smyrjið glassúrnum yfir alla kökuna og á hliðarnar. Setjið kókosflögur þétt á allar hliðar kökunnar og skreytið með litlum páskaeggjum.
mbl.is