Dúnmjúk heimabökuð skinkuhorn

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

„Ég veit held ég um engan sem ekki elskar skinkuhorn! Það er bara eitthvað í þessari blöndu sem fær mann til að vilja borða annað og annað og annað...,“ segir Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is um þessa nýjustu afurð sína.

„Ég veit heldur ekki um neinn sem er ekki til í að gera baksturinn fljótlegri og einfaldari en hann þarf að vera. Ég prófaði að útbúa skinkuhorn úr brauðbollumixinu frá Toro og útkoman varð svona dásamlega góð. Einn poki af bollumixi gaf 16 stór og ilmandi skinkuhorn á sunnudagsmorgni og fjölskyldunni þótti erfitt að bíða meðan á myndatöku stóð.“

Dúnmjúk skinkuhorn uppskrift

 • 1 pk. Toro Hveteboller-bökunarduft
 • 1 pk. skinkumyrja
 • 3 sneiðar smátt skorin skinka
 • 8 ostsneiðar
 • Egg til penslunar og sesamfræ

Aðferð:

 1. Hnoðið bollumixið samkvæmt leiðbeiningum á pakka og hefið í 10 mínútur.
 2. Skiptið deiginu í tvo hluta og fletjið hvorn um sig út eins og hringlaga pizzu um 30-35 cm í þvermál.
 3. Skiptið hvorum hluta niður í 8 sneiðar með pizzaskera eða hníf (samtals 16 skinkuhorn).
 4. Skiptið skinkumyrju og skinku jafnt á milli og setjið hálfa ostsneið ofan á hverja sneið.
 5. Rúllið upp frá breiðari endanum, setjið viskastykki yfir og leyfið að hefast í um klukkustund.
 6. Penslið þá með eggi og stráið sesamfræum yfir og bakið við 215°C í um 10 mínútur eða þar til hornin fara að gyllast.

Gott er að setja öll hráefnin nálægt breiðari endanum og síðan pakka þeim vel inn þegar rúllað er upp á sneiðina. Mér þykir síðan gott að snúa upp á hornin (til að koma í veg fyrir að osturinn og skinkumyrjan leki út) og sveigja þau örlítið til að mynda falleg bogalaga skinkuhorn.

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is