„Besta djöflaterta í heimi“

mbl.is/Gunnar Sverrisson

Ef Halla Bára og Gunni á Home & delicious segja að einhver kaka sé sú besta í heimi þá trúum við því. Flóknara er það ekki.

Kakan er ótrúlega falleg og eiginlega alveg ómótstæðileg enda ekki við öðru að búast frá þeim sómahjónum sem eru smekklegri en flestir.

Besta djöflaterta í heimi

Ef fólk væri beðið um að nefna eina uppáhaldsköku sem það ætti sér, er ekki ólíklegt að það myndi nefna djöflatertu. Djöflatertan gengur undir ýmsum nöfnum hjá fólki en það er eitthvað við svona einfalda köku sem kallar fram minningar sem flestir vilja halda í.

Djöflaterta og mjólkurglas – fullkomin samsetning! Uppskriftir að svona klassískri köku eru alveg óteljandi og svipað og með lasagna á Ítalíu, þar sem hver fjölskylda á sér sína uppskrift sem oft og tíðum er haldið leyndri, þá ætlum við ekki að gera það. Hér er komin okkar uppáhaldsdjöflaterta. Uppskriftin er ekkert leyndarmál, því hana á ein af skemmtilegri sjónvarpskokkum sem sjást á skjánum, Ina Garten sem kemur fram undir nafninu Barefoot Contessa. Kakan er draumi líkust og við erum á því að hlutföllin í henni séu fullkomin.

Botnar:

 • 220 g hveiti
 • 180 g sykur
 • 80 g kakó
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. natron
 • 1 tsk. salt
 • 2 1/2 dl mjólk eða rjómi frá Gott í matinn
 • 3/4 dl olía, t.d. repju-, hnetu- eða isio-olía
 • 2 egg
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 2 1/2 dl heitt kaffi

Aðferð:

Hitið ofn í 180 gráður. Setjið öll þurrefnin í hrærivélarskál, hrærið saman á lægstu stillingu og látið þau blandast vel.

Bætið þá mjólk eða rjóma, olíu, eggjum, vanilludropum og kaffi saman við og hrærið vel en varlega því blandan er frekar þunn. Hellið í tvö smurð bökunarform. Kakan fer best í 23 cm formi því þá ná botnarnir meiri þykkt og kakan er veglegri og reisulegri að bera fram.

Setjið í ofn og bakið í 20-30 mínútur. Stingið í botnana með kökuprjóni eftir 15 mínútur og athugið hvort hann kemur hreinn út. Ef svo er þá eru botnarnir bakaðir. Gætið að því að baka þá ekki of mikið, þá verða þeir þurrari en þeir eiga að vera. Kælið áður en kremið fer á þá.

Súkkulaðikrem:

 • 160 g suðusúkkulaði
 • 225 g mjúkt smjör
 • 1 eggjarauða
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 150 g flórsykur
 • 1 tsk. kaffiduft
 • 2 tsk. heitt vatn

Aðferð:

Bræðið súkkulaðið og kælið án þess að það taki að harðna. Hrærið það þá saman við mjúkt smjörið, í um 3 mínútur.

Setjið eggjarauðuna saman við og hrærið áfram þar til súkkulaðiblandan er glansandi og kekkjalaus. Bætið vanilludropum og flórsykri út í og hrærið rólega. Látið kaffiduftið leysast upp í heitu vatninu og hellið varlega saman við kremið. Hrærið áfram þar til kremið er mjúkt og létt.

Smyrjið kremi ofan á annan botninn, leggið þá hinn þar ofan á. Smyrjið kökuna vandlega með kreminu, topp og hliðar.

Mörgum þykir betra að kæla súkkulaðiköku eins og þessa áður en hún er borin fram. Það er alfarið ykkar ákvörðun því hún er alltaf jafn góð. Berið fram með þeyttum rjóma, ís, mascarpone-kremi, grískri jógúrt, ávöxtum, berjum eða bara eina og sér. Hún stendur fyllilega undir því.

Djöflatertukrem Guðrúnar:

Kremið sem gefið er upp á kökuna er aðeins meira sparikrem en maður nennir kannski alltaf að gera! Hér er uppskrift af ekta djöflatertusmjörkremi sem móðir/tengdamóðir okkar gerir alltaf á sína útgáfu. Fljótlegt en ótrúlega gott og hægt að nota á marga vegu, sbr. á bollakökur.

 • 200 g flórsykur
 • 60 g kakó
 • ½ tsk. salt
 • 80 g mjúkt smjör
 • 1 msk. kalt kaffi
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 5 msk. rjómi frá Gott í matinn

Aðferð:

Hrærið saman þurrefnunum í hærivél eða með þeytara og látið þau blandast vel. Bætið smjörinu, kalda kaffinu og vanilludropunum saman við, hrærið aðeins og bætið þá rjómanum út í. Rjóminn mýkir kremið og notið meira af honum ef kremið er stíft og óþarflega óþjált. Hrærið kremið þar til það er mjúkt og fallegt áferðar.

Smyrjið á kökuna og sigtið flórsykri, kakói, súkkulaðispæni eða kókos yfir upp á gamla mátann. Berið fram.

mbl.is