Einföld og bragðgóð bernaise-sósa

mbl.is/Hanna

Bernaise-sósa klikkar aldrei og hér búum við svo vel að geta sýnt ykkur myndand sem sýnir nákvæmlega hvernig hún er gerð.

Uppskriftin kemur úr smiðju Hönnu sem veit hvað hún syngur þegar kemur að matargerð.

Einföld og bragðgóð bernaise-sósa

 • 225 – 250 g smjör
 • 4 eggjarauður
 • 1 – 1½ msk. bernaise essence
 • 1 – 1½ tsk. estragon (1½ msk. ferskt)
 • 1 tsk. kjötkraftur (fljótandi eða duft)
 • Saltflögur – má sleppa

Verklýsing

 1. Smjör brætt í potti – á vægum hita. Mikilvægt að smjörið bráðni rólega og að vatn blandist ekki saman við (ekki láta lok yfir). Mér finnst betra að bræða smjörið ekki of mikið þ.e. að varast að það verði of heitt (þá þarf að kæla það þannig að hitastigið verði eins og á eggjarauðunum). Smjörinu hellt í sósukönnu – auðveldara að hella
 2. Eggjarauður hrærðar saman í stórri skál með þeytara (pískara) – sett í heitt vatnsbað (gott ofan í vaskinum) – sjá myndband. Til að sem best lukkist er mikilvægt að eggjarauðurnar séu við stofuhita þ.e. að hitastigið á þeim og smjörinu sé svipað. Gott að tveir hjálpist að – annar pískar eggjarauðurnar (í vatnsbaðinu) á meðan hinn hellir smjörinu rólega út í
 3. Essens, estragoni og kjötkrafti bætt saman við – pískað saman við
 4. Það er erfitt að hita sósuna mikið meira þar sem hún getur auðveldlega ystað. Það er alveg hægt að laga sósuna eitthvað áður og hita hana varlega aftur
 5. Það er stundum allur gangur á því hvernig sósan lukkast. Suma daga er hún svolítið þunn og aðra daga fullkomin. Eins og fram kom hér að ofan þá finnst mér sósan oft betri daginn eftir en þá nær hún að jafna sig aðeins í kæli og þykkna
 6. Ath. Sósuna má einnig þeyta í hrærivél en þá verður hún þykkri og meira eins og bernaisesmjör – sjá myndband. Ef bernaise-smjörið er sett í kæli verður það alveg hart.
 7. Ef sósan ystar: Skýringin er yfirleitt sú að þá sé smjörið of heitt og eggjarauðurnar kaldari. Þær má ekki hita of mikið.
mbl.is