Sex vinir ákváðu að opna bakarí saman

Kristinn Magnússon

Það er eitthvað við þessa sögu sem er svo ótrúlega heilt og fallegt. Sex vinir, allir úr Kópavoginum ákveða að opna bakarí í hverfinu, sannkallaða hverfisbúllu í viðleitni sinni til að halda lífi á gamla staðnum og búa til samkomustað fyrir hverfið. Staðurinn heitir Brauðkaup og að sögn vinanna á bak við hann eru þeir rétt að byrja.

Kristinn Magnússon

Á bakvið Brauðkaup standa sex strákar sem eiga sterkar rætur í Kópavogi. Þar af búa fimm þeirra á Kársnesinu og sá sjötti er sagður á leiðinni þangað. „Við komum allir úr ólíkum áttum, bæði borg og sveit og á meðal okkar eru lögmaður, flugmaður, húsasmiðir, tæknifræðingar, bruggari, kokkur, sálfræðingur, rekstrarmenn og frumkvöðlar,“ segja þeir félagarnir kankvísir. „En það sem sameinar okkur er Kársnesið, drifkraftur, vinátta og almenn gleði.“

Að sögn þeirra félaga er Brauðkaup fyrst og fremst staður fyrir hverfið. „Þetta er staður þar sem þú getur keypt hágæða brauð og úrvals bakkelsi til að taka með heim eða í vinnuna, en líka sest niður í smá stund – fengið þér gott kaffi, ískalda kókómjólk, snúð eða samloku og spjallað við nágrannann. Þetta á að vera staður fyrir iðnaðarmanninn, kennarann, framkvæmdastjórann, nemendur, sundfólkið, eldri borgara, krakkana, fólk í fæðingarorlofi og allt þar á milli.“

Kristinn Magnússon

Staðsetningin mikilvæg

„Þetta hús er náttúrulega hliðið að Kársnesi. Þegar þú keyrir inn Borgarholtsbrautina frá Hamraborginni blasir þetta hús við og býður alla velkomna. Hvort sem þú ert að fara í Kópavogssundlaug, í heimsókn á Þinghólsbraut, rölta meðfram sjónum eða bara á leiðinni heim til þín – þá heilsar húsið þér. Hluti af þessum hóp var búinn að horfa á þetta hús í áraraðir og dreyma um að eignast það. Þegar húsið kom á sölu vorið 2018 var ekki annað í boði en að kýla á þetta. Og svo þegar tækifæri gafst núna í lok desember þá voru bara brettar upp ermarnar, gömlum innréttingum mokað út og Brauðkaup var riggað upp á sjö vikum.“

Móttökurnar hafa verið framar björtustu vonum og þeir félagar himinsælir með þær. „Við gætum ekki verið ánægðari með okkar fólk. Móttökurnar hafa verið framúrskarandi og efla okkur í að gera enn betur á næstu misserum en það eru spennandi tímar framundan í Kársnesinu.

Kristinn Magnússon

Góð þjónusta og gæðavara

Matseðillinn er einnig nokkuð fjölbreyttur og verðum stillt í hóf. „Súrdeigsbrauðin eru stærsti parturinn af okkar úrvali. Classic, gróf, heilkorna og svo dásamlega trönuberjabrauðið eru sannkallaðir gimsteinar. Það er fátt betra en nýbakað úrvals súrdeigsbrauð með smjöri og osti eða góðu chilli túnfisksalati. Í bakkelsinu eru það snúðarnir sem eru alltaf vinsælir, þessir klassísku eða eitthvað aðeins öðruvísi eins og pistasíusnúðar eða cinnabun, en hindberjacroissantið hefur líka komið sterkt inn. Svo bindum við miklar vonir við grillsamlokurnar okkar - Kylie Jenner, De Niro og Don Heffe eiga eftir að gera allt vitlaust,“ segir þeir félagar og ljóst að ekki skortir hugmyndaauðgina á þeim bænum.

Kristinn Magnússon

Næstu skref eru enn óráðin en aðaláherslan sé að vera með góða þjónustu og gæðavöru. „Við erum svo sem að feta okkur fyrstu skref við að þjónusta hverfisbúa og viljum gera það eins vel og við getum. Okkur langar samt að bæta við á næstunni og bjóða meira matarkyns tengt hádegismat, en við höldum að þar sé eftirspurn. Nú þegar erum við með grillaðar súrdeigssamlokur á sanngjörnu verði og svo ætlum við að bæta við súpu á virkum dögum. Svo eru plön um að nýta afgangs brauð í bjórgerð, en einn okkar hefur unnið í dágóðan tíma sem bruggari. En hver veit síðan hvað framtíðin ber í skauti sér. Möguleikarnir á Kársnesinu er miklir og við eigum okkur draum um stærri hverfisstað og meiri gleði. Við sjáum hvað setur.“

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Kristinn Magnússon
Kristinn Magnússon
Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »