Spínatbaka sem er algjört æði

Baka í hollari kantinum sem inniheldur spínat og lax.
Baka í hollari kantinum sem inniheldur spínat og lax. mbl.is/Spisbedre.dk

Svona bökur sem þessi eru gargandi snilld – auðveldar í framkvæmd og frábær tilbreyting á kvöldverðarborðið. Þessi holla baka inniheldur spínat, lax og furuhnetur sem setja algjörlega punktinn yfir i-ið.

Spínatbaka með laxi og furuhnetum (fyrir 4)

Botn:

  • 100 g heilhveiti
  • 50 g haframjöl
  • 25 g hveiti
  • ½ tsk. salt
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 msk. sýrður rjómi 18%
  • ½ dl kalt vatn

Spínatfylling:

  • 300 g ferskt spínat
  • 1 tsk. ólífuolía til að steikja
  • 200 g ferskur lax
  • Ferskt dill
  • 3 egg
  • ½ dl sýrður rjómi 18%
  • 200 g kotasæla
  • ½ sítróna
  • ½ tsk. þurrkaðar chiliflögur
  • salt og pipar
  • 30 g furuhnetur

Aðferð:

Botn:

  1. Hitið ofninn í 200°C. Blandið saman heilhveiti, haframjöli, hveiti og salti í skál. Hrærið olíu og sýrðum rjóma út í. Bætið kalda vatninu út í smátt og smátt þar til deigið er orðið slétt og fínt.
  2. Þrýstið deiginu í smurt tertuform (24 cm) með fingrunum, þannig að deigið fylli bæði botn og kanta. Stingið í botninn með gaffli og bakið í ofni í 10 mínútur.

Spínatfylling:

  1. Skolið og þurrkið spínatið. Hitið pönnu með olíu og steikið spínatið í nokkrar mínútur þar til það skreppur saman.
  2. Skerið laxinn í teninga. Hakkið dillið fínt og rífið með rifjárni börkinn á sítrónunni. Pískið egg, sýrðan rjóma, kotasælu og dill saman í skál og kryddið blönduna með rifnum sítrónuberki, chiliflögum, salti og pipar.
  3. Dreifið spínati og laxi yfir tertubotninn og hellið eggjablöndunni yfir. Dreifið furuhnetum yfir.
  4. Bakið í ofni í 35 mínútur eða þar til bakað í gegn og eggjablandan er ekki lengur fljótandi.
  5. Berist strax fram og jafnvel með litríku og góðu salati.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert