Tikka Masala ketó kjúklingur

mbl.is/Kolfinna Kristínardóttir

Hér erum við með eðal-uppskrift sem hentar við öll tækifæri og rúsínan í pylsuendanum er að hún er ketó. Það er engin önnur en Kolfinna Kristínar á Iceland Ketó sem á þessa snilld sem hún setti saman úr afgangs lambalæri eftir páskana. 

„Ég geri yfirleitt þennan vinsæla rétt með kjúkling en það var jafn gott að nota niðurskorið lambalæri,“ segir Kolfinna og bætir við að gott sé að bera réttinn fram með blómkálshrísgrjónum, jógúrtsósu og ketó-naan brauði. 

Tikka Masala ketó kjúklingur

Marinering:

  • 1 dl hrein jógúrt
  • 1 tsk túrmerik
  • ½ tsk garam masala
  • 1 matskeið sítrónusafi
  • garam masala
  • svartur pipar

Ég mæli einnig með því að nota úrbeinuð læri frekar en bringur - meiri fita í þeim sem er fullkomið fyrir ketó mataræðið en einnig betra kjöt í svona rétti.

Tikka masala (Uppskriftin miðast við fyrir 2-3)

  • 2-3 matskeiðar olía
  • Dós af kókósmjólk
  • 1 teskeið ferskt engifer
  • 2-3 hvítlauskrif
  • 1 laukur (lítill)
  • 1 ferskur chilli
  • 3 ½ matskeið af garam masala*
  • 60 gr tómatpúrra
  • Salt eftir smekk
  • Fersk kóríander

*Ef þið eigið ekki til garam masala (ég keypti í usa) þá er hægt að blanda saman jöfnum hlutföllum af kúmen, kóríander, kardimommum, pipar, kanil, negull og múskati.

Aðferð:

Skerið laukinn og hvítlaukinn mjög smátt og steikið upp úr olíu þar til hann brúnast. Bætið svo við smátt skornu engifer og chilli og haldið áfram að steikja á miðlungshita í um 10 mín. Bætið smá vatni út á pönnuna og látið malla í um 10 mín. Bætið svo við kryddunum. Ef grænmetið byrjar að steikjast við pönnuna (verða stökkt) bætið þá við meira vatni. Næst er tómatpúrrunni bætt við og látið malla, svo kókósmjólinni. Munið að smakka reglulega til að sjá hvort það vantar meira salt eða önnur krydd.

Steikið kjúklinginn á annarri pönnu (eða hvaða kjöt sem þið eruð með) og setjið svo út á sósuna, þar sem ég var með afgangs lambalæri skar ég það í litla bita og bætti út í sósuna. Að lokum er stráð ferskum kórídaner yfir allt.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is/Kolfinna Kristínardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert