Marengsskál sem toppar veisluna

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Þegar Berglind á Gotterí & gersemum bakar þá fylgjumst við hin með og lærum. Hér eru það marengstoppar sem eiga alltaf vel við.

Sjálf segir Berglind að hún hafi verið að baka fyrir dessertstandinn sinn en svo hafi hún ekki þurft að nota þá alla svo hún hafi nýtt restina í eftirrétt í matarboð sem hún hélt þá um kvöldið.

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Marengsskál 

 • 3 eggjahvítur
 • 3 dl púðursykur
 • 350 ml þeyttur rjómi
 • 2 lakkrísrör í sneiðum
 • 40 g saxað suðusúkkulaði
 • Súkkulaðikossar

Aðferð:

 1. Hitið ofninn 110°C
 2. Þeytið eggjahvítur og púðursykur upp í topp.
 3. Setjið í sprautupoka með stórum hringlaga stút (um 2 cm í þvermál) og sprautið toppa á tvær bökunarplötur.  
 4. Bakið í um 45 mínútur og leyfið helst að kólna með ofninum (þá falla þeir síður).
 5. Raðið síðan kældum toppum í botninn á skál sem er um 20 cm í þvermál (má alveg vera aðeins stærri samt, uppskriftin dugar í það).
 6. Smyrjið þeytta rjómanum yfir og stráið smá suðusúkkulaði og lakkrís yfir.
 7. Raðið þá öðru lagi af marengstoppum yfir rjómann og stráið aftur suðusúkkulaði, lakkrís og einnig súkkulaðikossum.
 8. Gott er að kæla í að minnsta kosti 2-3 klukkustundir áður en bera á fram.
 9. Athugið að hægt er að skipta lakkrísrörum og suðusúkkulaði út fyrir tilbúið lakkrískurl með súkkulaði, ég átti hitt bara til og notaði það því.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is