Hressandi lax sem bjargar geðheilsunni

mbl.is/Fiskur í matinn

Það er væntanlega mánudagur í fleirum en mér og því er nauðsynlegt að hressa sig við þegar allt virðist einhvern veginn aðeins erfiðara en oft áður.

Fyrir ykkur hin sem eruð að springa úr hressleika þá virkar þessi uppskrift líka en ég vil meina að þetta sé hin fullkomna blanda huggunar- og heilsufæðis. Ljúffengt, gott og geggjað fyrir kroppinn.

Uppskriftin kemur úr smiðju Leifs Kolbeins á La Primavera.

Steiktur lax með fenníkusalati og raita-sósu

 • 800 g lax

Fennelsalat

 • 1 góður fennel, skorin. eins þunnt og hægt er
 • Safi úr ½ sítrónu
 • Salt og pipar
 • ½ rauður chili
 • 2 msk. jómfrúarolía 

Raita-sósa

 • 1 meðalstór agúrka
 • 300 ml hein jógúrt
 • Ögn af chili-fræjum 
 • ¼ tsk. mulið kóríander
 • 60 g rauðlaukur, fínsaxaður
 • 1 msk. sítrónusafi
 • 3 msk. fersk minta, fínsöxuð
 • Svartur pipar, nýmulinn

Aðferð:

Fennelsalat: Öllu blandað vel saman í skál og geymt í u.þ.b.10 mín.

Raita-sósa: Agúrkan er skræld, skorin eftir endilöngu og kjarninn tekin úr, skorin í þunnar sneiðar og sett í skál með 1 tsk. af salti og geymd í 30 mín. Blandið jógúrtinni saman við saltaða agúrkuna, chili-fræin, sítrónusafann, rauðlaukinn, ögn salti og pipar, mintu og kóríander. Blandið vel saman og setjið í kæli (geymist vel í 24 tíma).

Steikið laxinn vel í olíu á vel heitri pönnu í u.þ.b. 34 mín. á hvorri hlið, kryddið með salti og pipar. Berið fram með fenníkusalati og raita-sósunni.

Uppskrift: Leifur Kolbeins / Fiskur í matinn

mbl.is