Geggjað kjúklingasnitzel

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

„Auðvitað ætti ég að vera elda ekta vínarsnitzel eftir þeirri aðferð sem ég lærði af Harald, yfirkokkinum á Das Seekarhaus-skíðahótelinu í Obertauern. Hægt er að sjá hvernig við elduðum þá uppskrift á sjónvarpi Símans. Nýju þættirnir mínir, Ferðalag bragðlaukanna, Alparnir, voru að fara í loftið á Premium núna um páskana. Þeir verða sýndir fljótlega í línulegri dagskrá,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson um þessa uppskrift.

„En svona er það svo oft með matarupplifun. Ein uppskrift vekur manni innblástur og kveikir nýjar hugmyndir til að prófa að gera hana aðeins öðruvísi. Og þessi var talsvert öðruvísi að því leyti að ég notaði kjúkling í stað kálfakjötsins og djúpsteikti það frekar en að elda það í skírðu smjöri (sem er auðvitað besta leiðin). Og ég stoppaði ekki þar - þetta er gerólík uppskrift.“

Geggjað kjúklingasnitzel með krydd- og skalottulaukssmjöri með bökuðum sætum kartöflum og spínati

Fyrir fimm

  • 5 kjúklingabringur
  • hveiti
  • 4 egg
  • brauðmylsna
  • hvítlauksduft
  • sítrónupipar
  • salt
  • 200 g smjör
  • 2 hvítlauksrif
  • basil, steinselja
  • 1 skalottulaukur
  • sítrónusafi
  • 2 sætar kartöflur
  • 200 g spínat
  • 1/2 dós fetaostur
  • 4 msk. hvítlauksolía
  • rósmarín
  • salt og pipar

Það er gott að byrja að gera kryddsmjörið. Ég mýkti smjörið í örbylgjuofni í nokkrar sekúndur og blandaði svo smáttskornum skalottulauk, hvítlauk og kryddjurtum saman við. Bætti sítrónusafa við og pipraði lítillega. Setti á bökunarpappír og vafði upp í karmellu og setti aftur inn í kælinn.

Næst voru það kartöflurnar. Þær voru flysjaðar og skornar í netta teninga. Velt upp úr hvítlauksolíu, fersku rósmaríni og salti og pipar. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur. Þá var spínatinu bætt saman við, blandað varlega saman (svo kartöflurnar yrðu ekki að mauki) og leyft að koðna niður með heitum kartöflunum.

Það er mikilvægt að bragðbæta hveitið. Ég setti fullt af salti og sítrónupipar.

Sama gildir um eggin, þau þarf að hræra saman með örlitlu af vatni, salta og pipra.

Kjúklingurinn er flattur út með kjöthamri (best er að setja hann í þykkan plastpoka og lemja hann varlega). Svo er hann settur í hveitið, svo eggið, því næst brauðmylsnuna ...

...og þaðan út í heita olínuna. Steikt í nokkrar mínútur.

Setti að lokum alla steiktu bitana í 180 gráðu heitan ofn í 10 mínútur.

Svo var að huga aftur að kartöflunum. Ég tók fetaost og braut hann niður aðeins með gaffli.

Svo muldi ég ostinn yfir kartöflurnar og spínatið. Skreytti með smáttskornum ferskum kryddjurtum, basil og steinselju.

Þetta var alveg einstaklega vel heppnaður réttur - lungamjúkur kjúklingur með fullt af kryddsmjöri.

Svo má líka prófa sig áfram með kalkún - það er líka einstaklega ljúffengt.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert