Lambahryggur á tvo vegu með sjúklegri sósu

mbl.is/Eva Laufey

Það er engin önnur en Eva Laufey sem á þessar dásemdaruppskriftir að lambahrygg og sósu. Reyndar er um að ræða tvær uppskriftir því önnur kemur frá tengamóður hennar og þykir algjör snilld. 

Það er ekki hægt að slá hendinni á móti þessu gúmmelaði...

Fylltur lambahryggur

 • Lambahryggur ca. 2 kg, úrbeinaður
 • 1 – 2 msk. Bezt á lambið krydd
 • Salt og pipar

Fylling:

 • 100 g furuhnetur
 • 1 krukka sólkysstir tómatar
 • 100 g saxaðar döðlur
 • 1 hvítlauksrif
 • 2 hvítlauksrif
 • Salt og pipar
 • 3 msk. fetaostur

Aðferð:

 1. Forhitið ofninn í 180°C.
 2. Látið kjötborðið úrbeina lambahrygginn eða úrbeinið sjálf.
 3. Setjið öll hráefnin sem eiga að fara í fyllinguna í matvinnsluvél og maukið vel.
 4. Setjið fyllinguna á milli hryggjarvöðvanna og leggið lundirnar þar ofan á.
 5. Mótið rúllu og vefjið seglgarni utan um rúlluna og kryddið hrygginn með salti, pipar og Bezt á lambið kryddi eða öðru góðu kryddi sem passar á lambakjöt (ég gleymdi að kaupa seglgarn en notaði tannstöngla að þessu sinni!).
 6. Setjið lambahrygginn í eldfast mót, hellið hálfum lítra af soðnu vatni í fatið og inn í ofn við 180°C í 45 – 50 mínútur. Þegar 15 mínútur eru eftir af eldunartímanum er ágætt að hækka hitann í 210°C.
 7. Leyfið kjötinu að hvíla í 10 mínútur áður en þið skerið það og berið fram, hellið soðinu frá og geymið í sósugerð.
mbl.is/Eva Laufey

Ljúffeng sósa með lambakjöti

 • 300 – 400 ml soð
 • 12 – 14 sveppir
 • 2 msk. smjör
 • Salt og pipar
 • 500 ml rjómi
 • Sósuþykkjari
 • 1/2  – 1 lambakjötsteningur

Aðferð:

 1. Skerið sveppi smátt og steikið upp úr smjöri, kryddið með salti og pipar.
 2. Hellið soðinu og rjómanum saman við og náið upp suðu.
 3. Bætið lambakjötskrafti og smávegis af sósuþykkni út í, hrærið stöðugt í sósunni og lækkið hitann.
 4. Þegar þið eruð ánægð með áferðina á sósunni er hún tilbúin og munið að það er mjög mikilvægt að smakka sig til.
mbl.is/Eva Laufey

Hægeldaður lambahryggur eins og tengdó gerir

 • 1 hryggur ca. 3 kg
 • Salt og pipar
 • 500 – 600 ml soðið vatn
 • ½ lambakjötsteningur

Aðferð:

 1. Forhitið ofninn í 230°C.
 2. Kryddið hrygginn með salti og pipar, setjið í eldfast mót og inn í ofn við 230°C í 25 – 30 mínútur.
 3. Lækkið hitann niður í 150°C, hellið hálfum lítra af soðnu vatni í fatið og leyfið kjötinu að malla í 5 – 6 klst. Það gæti verið að þið þurfið að bæta vatni í fatið einu sinni til tvisvar og þá bara 100 – 200 ml í senn.
 4. Leyfið kjötinu að hvíla í lágmark 10 mínútur áður en þið berið það fram og sigtið að sjálfsögðu soðið frá og notið í sósugerð.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is