Brauðrétturinn sem sælkerarnir elska

mbl.is/Linda Ben

Brauðréttir eru listgrein út af fyrir sig og það er fátt sem þessi þjóð veit skemmtilegra en að smakka nýjan brauðrétt. Það er þó ekkert flipp í boði því innst inni erum við ákaflega fastheldin og góður brauðréttur verður að innihalda ákveðin grunninnihaldsefni svo hann teljist alvörubrauðréttur.

Þessi er algjör negla enda kemur hann úr smiðju mömmu hennar Lindu Ben en eins og lesendur Matarvefjarins ættu að vita er konan sú ansi lunkin í eldhúsinu.

Rétturinn er tilvalinn á veisluborðið við hvaða tilefni sem er.

Pepperóní-brauðrétturinn hennar mömmu

 • 1 bréf pepperóní
 • 2-3 beikon sneiðar (má sleppa)
 • ½ blaðlaukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 10 sveppir
 • 16 brauðsneiðar
 • 10 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 dl svartar ólífur má sleppa
 • 600 ml Rjómi frá Örnu
 • 1 stk. kryddostur frá Örnu mjólkurvörum með beikoni og papriku
 • 1 stk. kryddostur frá Örnu mjólkurvörum með hvítlauk eða svörtum pipar
 • Rifinn ostur frá Örnu mjólkurvörum

Aðferð:

Steikið beikonið þar til það er stökkt og gott, takið af pönnunni og skerið það í litla bita.
Steikið blaðlauk og sveppi saman á pönnu, bætið pepperóníinu og hvítlauk á pönnuna og steikið létt.
Skerið brauðið í teninga og raðið þeim í tvö eldföst mót, hellið blöndunni af pönnunni yfir brauðið. Skerið sólþurrkaða tómata og bætið út á ásamt ólífum og beikoninu.
Skerið kryddostana niður í bita og setjið í pott ásamt rjómanum, hitið þar til allt hefur bráðnað saman. Hellið rjómanum yfir blönduna í eldföstu mótunum og dreifið svo rifna ostinum yfir.
Hér er hægt að geyma réttina yfir nótt, pakkið þeim vel inn í plastfilmu og geymið í ísskáp.
Kveikið á ofninum, stillið á 180ºC, bakið í u.þ.b. 20 mín. eða þar til osturinn fer að verða gullinbrúnn. Fallegt að setja smá svartan pipar yfir þegar rétturinn kemur úr ofninum, berið strax fram.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

mbl.is/Linda Ben
mbl.is/Linda Ben
mbl.is