Einn vinsælasti staður landsins opnar nýtt útibú

Ásdís Ásgeirsdóttir

Það er kryddilmur í loftinu á Mandi og hádegisgestir byrjaðir að streyma inn þegar blaðamann ber að garði. Þannig vill til að unglingssynir blaðamanns eru sólgnir í matinn á Mandi, enda er staðurinn uppáhald margra unglinga bæjarins. En það eru ekki bara unglingar sem kunna að meta sýrlenska matinn hjá þeim hjónum Hlal Jarah frá Sýrlandi og Iwonu Sochacka frá Póllandi sem eiga og reka Mandi á Ingólfstorgi. Fullorðnir jafnt sem börn kunna líka vel að meta staðinn, enda er maturinn þar bæði ódýr og góður og vilja eigendur ná hylli allra aldurshópa.

„Hingað kemur fólk á öllum aldri. Bæði nemendur og starfsfólk hér í kring,“ segir Hlal sem segir að þau reyni eftir fremsta megni að halda verðinu niðri. Þau segja ánægð frá því að meirihluti gestanna séu Íslendingar, enda eru það kúnnarnir sem koma aftur og aftur.

Ásdís Ásgeirsdóttir

Lærði að elda af pabba

Hjónin hittust á Café París fyrir tíu árum og tóku tal saman. Innan árs voru þau trúlofuð og eru í dag gift og eiga tvö börn. Iwona hafði aðeins ætlað að staldra við á Íslandi í eitt ár en örlögin gripu í taumana þegar ástin bankaði upp á.

Hlal er frá Damaskus, kominn af kokkum en faðir hans kenndi honum handtökin strax í æsku. Maturinn á Mandi er að mestu sýrlenskur en þó er þar einnig hægt að fá hamborgara og bæði er hægt að borða á staðnum og eins taka með sér heim.

„Vinsælast er kjúklingashawarma og einnig falafel,“ segir hann.

„Við viljum frekar vera með fáa og góða rétti heldur en of marga og rugla fólk í ríminu. Það er helst í veitingaþjónustunni að fjölbreytnin er meiri,“ segir Hlal, en meðfram vinnunni í Mandi reka þau veisluþjónustu sem býður upp á sýrlenska smárétti.

„Það er stundum svo svakalega mikið að gera að ég þarf að neita fólki sem vill panta fyrir veislur, en við erum að leita að aukastarfsfólki núna,“ segir Iwona.

Ásdís Ásgeirsdóttir

Leynileg sósa á frönskum

„Við erum alltaf að vinna. Hér er opið alla daga frá tíu til að ganga tvö á nóttunni. Um helgar er opið til sex á morgnana,“ segir hún.

„Kokkarnir á veitingastöðum í kring koma gjarnan til okkar um helgar þegar þeirra vakt lýkur,“ segir hann og hlær.

„Við höfum verið hér í sjö ár en erum að opna nýjan stað í Faxafeni 9 innan skamms,“ segir Iwona.

Ásdís Ásgeirsdóttir

Blaðamaður hafði fengið veður af því að frönsku kartöflurnar á Mandi væru einstakar. Ofan á þær er sett sérstök sósa sem gerir gæfumuninn. Í upphafi fannst gestum þessi sósa fullsterk og kunnu ekki að meta frönsku kartöflurnar. Þau tóku þá upp á því að gefa fólki fríar franskar til að fá fólk til að komast upp á bragðið. Eitt sinn gáfu þau þúsund skammta fólki sem var samankomið á Ingólfstorgi og er óhætt að segja að bragðið hafi tekist. Aðspurð hvort þau vilji gefa Morgunblaðinu uppskrift að leynisósunni góðu brosa þau og svara einum rómi: „Nei!“

Ásdís Ásgeirsdóttir

Hummus

  • 1 kg kjúklingabaunir
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 1-2 tsk. salt
  • 6-8 msk. tahini
  • hálfur bolli vatn
  • ólífuolía
  • cumin

Setjið kjúklingabaunir í stóra skál og hellið vatni þannig að flæði yfir baunirnar. Sjóðið svo baunirnar þar til mjúkar og kælið svo.

Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél en byrjið á kjúklingabaunum og vatni og bætið svo við sítrónusafa, tahini og salti. Hrærið þar til silkimjúkt. Berið fram með ólífuolíu, cumin og brauði.

Hjónin Hlal Jarah frá Sýrlandi og Iwonu Sochacka frá Póllandi …
Hjónin Hlal Jarah frá Sýrlandi og Iwonu Sochacka frá Póllandi eiga og reka Mandi á Ingólfstorgi. Ásdís Ásgeirsdóttir

Falafel

  • 1 kg kjúklingabaunir
  • 1 lítill laukur
  • ein lúka steinselja, eða eftir smekk
  • 1-2 tsk. salt
  • 1 tsk. lyftiduft
  • olía til steikingar
  • 1 tsk. cumin
  • 2-3 hvítlauksrif

Setjið kjúklingabaunir í stóra skál og hellið vatni þannig að flæði yfir. Látið standa í vatni í 2-3 tíma. Setjið kjúklingabaunir, lauk, hvítlauk og steinselju í matvinnsluvél og blandið vel saman. Bætið kryddunum út í og blandið áfram.

Takið skeið eða ísskeið og búið til litlar kúlur. Setjið olíu í pott og náið upp kjörhita til að djúpsteikja. Látið bollurnar út í sjóðandi olíuna og djúpsteikið þar til gullinbrúnar. Veiðið þær upp úr með gataspaða. Gott er að setja falafel-bollurnar í pítubrauð með fersku grænmeti og hummus eða einar og sér með með hummus.

Arias María

  • 1 kg gott lambakjöt
  • 2 msk. salt
  • 1 msk. kóríanderduft
  • svartur pipar
  • hvítur pipar
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • 1 lítill laukur
  • tortillur

Hakkið kjötið ásamt steinselju, lauk og papriku. Þegar allt er maukað, bætið kryddunum saman við og hrærið áfram. Setjið kjöt á helming tortillu og þekið með osti. Lokið tortillunni og grillið í ofni eða á grilli þar til kjötið er eldað og osturinn bráðinn.

Berið fram með frönskum.

Tabbouleh-salat

  • ½ bolli fínt bulgur
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 bolli sjóðandi vatn
  • 3-4 búnt flatlaufasteinselja, smátt skorin
  • 2 tómatar, skornir í bita
  • 3 msk. safi úr sítrónu (má vera aðeins meira)
  • 1 tsk. salt
  • svartur pipar, eftir smekk

Hrærið saman bulgur og eina matskeið ólífuolíu. Hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í 15-20 mínútur. Sigtið vatnið frá.

Setjið í skál og blandið saman við hin hráefnin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert