Ég hata að horfa á fólk grilla

Gunnlaugur Snær Ólafsson.
Gunnlaugur Snær Ólafsson.

Mín skoðun: Gunnlaugur Snær Ólafsson

Pistill birtist upphaflega í Grillblaði Morgunblaðsins á föstudaginn og hefur vakið ómælda kátínu meðal lesenda.

Ég hata að horfa á fólk grilla.

Hver sá sem leggur í þann leiðangur að grilla tileinkar sér sínar eigin aðferðir og sérkenni, ekki síst eru margir bundnir grillmennsku sinni miklum tilfinningaböndum. Það dásamlega við grill er að það er ekki flókið og ekki bara fyrir sérstaka áhugamenn, það geta allir grillað og notið þess að láta undan hvötum frummannsins til þess að elda yfir eldi.

Þó að allir geri hlutina á sinn hátt þá eru atriði sem ég get bara ekki liðið. Til að mynda þessi endalausa þörf sumra að sífellt vera að fikta í kjötinu eftir að því hefur verið komið fyrir á grillinu. Láttu kjötið vera! (Langar mig að öskra). Ef maður á annað borð hyggst loka kjötinu á háum hita verður hitinn að minnsta kosti að ná til þess áður en farið er að trufla eldunina. Þegar önnur hliðin er klár, þá og bara þá má snúa stykkinu.

Kannski besta dæmið er þessi sem skellir hamborgara á grillið og fer strax að athuga hvort borgarinn sé ekki tilbúinn á annarri hliðinni. Við þetta byrjar hann að sjálfsögðu að hrynja í sundur og með smá heppni er hægt að komast hjá því að helmingurinn hrynji milli rimlanna.

Hvernig veit ég að kjötið er tilbúið ef ég á ekki að fikta í því, gætu sumir spurt sig. Ég spyr: Hvernig veistu að eggið er soðið án þess að opna það? Grillun er list og það þarf æfingu og vilja til þess að læra að meta aðstæður og afurð. Þá getur verið ástæða til þess að þukla á kjötinu áður en eldun hefst til þess að meta tíma og hita.

Taktlaust?

Hver hefur ekki lent í því að vera boðið í grillveislu og verið svo heppinn að fá einn vænan kolamola á diskinn sem er hrár að innan? Já, það er þetta með að hreyfa ekki við kjötinu og alls ekki hreyfa við því. Tala nú ekki um þegar maður horfir upp á það að brennarinn er settur á hæsta stig til þess að hita grillið, en hinum seinheppna dettur ekki í hug að lækka hitann á grillinu.

Svona rétt að lokum verður að ræða þetta með þrif. Myndi nokkur borða steik af pönnu sem aldrei hefur verið þrifin? Gerðu öllum greiða og þrífðu grillið þitt.

Það er ekki ætlun mín með þessum skrifum að þykjast vera fullkominn með grilltöngina, heldur er það aðeins kjörið tækifæri til þess að fá útrás enda er það auðvitað algjörlega taktlaust í vitna viðurvist að setja út á grillun annarra enda athæfið heilagt. Það á einnig við að grípa fram fyrir hendur þess sem grillar. Að fikta í grilli annarra er eins og að ganga í nærfötum þeirra, við fiktum ekki nema með leyfi.

Mínar miklu skoðanir á grillun og almenn kurteisi veldur því að ég hata að horfa á fólk grilla. Eru fleiri svona furðulegir?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert